Meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 11:11:15 (4317)

2001-02-08 11:11:15# 126. lþ. 66.91 fundur 270#B meðferð viðkvæmra persónuupplýsinga hjá lögreglunni# (umræður utan dagskrár), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[11:11]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Hér hefur margt athyglisvert komið fram sem mætti hafa langt mál um. Ég vil þakka hv. þm. fyrir ýmsar þarfar ábendingar.

Varðandi þá upplýsingagjöf tollgæslu til Íslandspósts sem er auðvitað neisti þessarar umræðu, finnst mér rétt að taka fram að óhjákvæmilega kemur oft til samvinnu tollvarða og lögreglu á frumstigum rannsókna fíkniefnabrota, t.d. þegar tollverðir finna fíkniefni eða upplýsingar berast um fíkniefnasendingar á leið til landsins. Þá hljóta lögregla og tollur að skiptast á nauðsynlegum upplýsingum fyrir framgang rannsóknarinnar. En þar er ekki um sérstakan nafnalista að ræða. Það er ljóst að tollyfirvöld í Reykjavík hafa ekki aðgang að málaskrá lögreglunnar. Það eru mjög strangar takmarkanir um aðgang að málaskránni og þeim er framfylgt. Lögreglan fylgir markvisst hinni nýju reglugerð og ríkislögreglustjóri hefur nú þegar hafið eftirrekstur í því skyni að tryggja að rétt sé staðið að málum hjá öllum lögregluembættum.

Hitt er svo annað mál sem ég hef hugleitt undir umræðunni á síðustu dögum hvort það sé ekki í raun eðlilegt og skiljanlegt að menn vilji sporna við því að fíkniefnainnflytjendur eða sölumenn fíkniefna starfi við afgreiðslu á póstsendingum frá útlöndum sem eru auðvitað þekkt smyglleið fyrir fíkniefni. Því miður hafa komið upp slík dæmi. En það á ekki að standa að upplýsingaöflunum um umsækjendur á þann hátt sem sagt hefur verið frá í fréttum að undanförnu.

Ef fyrir því eru brýnar ástæður að kanna þurfi bakgrunn umsækjanda um svo viðkvæm störf væri t.d. á umsóknareyðublöðum hægt að óska samþykkis þeirra á því að löggæsluyfirvöld væru spurð hvort umsækjendur hefðu gerst uppvísir að misferli hvað fíkniefni varðar. Ég tel í sjálfu sér ekki óeðlilegt huga að setningu slíkra reglna sem væntanlega yrði að gerast með löggjöf en þá yrði um leið að afmarka hvaða upplýsinga yrði leitað um viðkomandi umsækjanda í gögnum lögreglunnar. Þá hefur líka verið leitað eftir sakavottorðum en þau gefa takmarkaðar upplýsingar vegna þess að mjög ákveðnar reglur um eyðingu upplýsinga koma þar fram.

Ég vil (Forseti hringir.) hins vegar ítreka að þessi umræða í dag er mikilvæg og hún knýr okkur til þess að leita svara við þeirri áleitnu spurningu hvar við ætlum að draga mörkin milli friðhelgi einkalífsins og (Forseti hringir.) almannaþarfar fyrir persónuupplýsingar við uppljóstrun brotastarfsemi og varnir gegn glæpum.