Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:34:59 (4338)

2001-02-08 12:34:59# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:34]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Allir Íslendingar eru skyldaðir til að greiða í lífeyrissjóð og sjúkrasjóð samkvæmt lögum til að þeir séu tryggðir ef eitthvað hendir þá, t.d. slys. Þá fá þeir örorkulífeyri úr lífeyrissjóði og bætur úr sjúkrasjóðum verkalýðshreyfingarinnar. Þetta gerir löggjafinn til þess að tryggja menn. Síðan ef menn lenda í slysi sem fellur undir skaðabótalögin fá þeir bætur þar og í rauninni ættu allar bætur úr fyrrnefndum kerfum, sjúkratryggingum og lífeyrissjóðum að dragast frá að fullu, að mínu mati.

Það sem kemur út úr þessu er oftrygging þeirra sem verða fyrir tjóni vegna þess að lífeyrissjóðirnir ásamt Tryggingastofnun tryggja mönnum 60--70% af launum áfram. Það hefur komið fram í svari sem ég hef fengið. Ef menn eiga síðan að fá úr skaðabótalögum til viðbótar einhverjar milljónir, 9--10 millj. þá er oft um að ræða oftryggingu og oftrygging er skaðleg vegna þess að hún er greidd af einhverjum og það hafa bíleigendur verið að finna á buddunni sinni að oftrygging kemur fram í mjög hækkuðum iðgjöldum til einmitt skaðabótatrygginga.

Nú er spurning mín til hv. þm.: Telur hún eðlilegt að stuðla að enn frekari oftryggingu með því að taka ekkert tillit til bóta úr þeim lögbundnu tryggingum sem velferðarkerfið okkar byggir á?