Skaðabótalög

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 12:41:32 (4342)

2001-02-08 12:41:32# 126. lþ. 66.4 fundur 50. mál: #A skaðabótalög# (tímabundið atvinnutjón) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[12:41]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við fjöllum um breytingu á skaðabótalögum frá hv. stjórnarandstöðu. Þetta er eitt af þeim málum sem koma fram til breytingar á velferðarkerfinu án þess að horft sé á heildarmyndina. Enn einu sinni er rætt um breytingartillögu á velferðarkerfinu án þess að litið sé á heildarmyndina.

Hvernig er almannatryggingakerfið uppbyggt? Umræðan undanfarið um öryrkjadóm Hæstaréttar sýnir að menn líta aldrei á allt kerfið í heild sinni.

Í fyrsta lagi erum við með almannatryggingar sem tryggja ákveðið lágmark, tekjutryggingu og því um líkt, sem á í rauninni ekki við nema þá aðila sem ekki eru á vinnumarkaði. Síðan erum við með skylduaðild að lífeyrissjóðum sem komið var á 1974 en margir lífeyrissjóðir hafa starfað miklu lengur. Þessi skylduaðild átti við launþega frá 1974 og alla Íslendinga frá 1980, líka sjálfstæða atvinnurekendur. Í minnst 21 ár höfum við haft skylduaðild að lífeyrissjóði. Þá voru eina nóttina sett á lög um skylduaðild að sjúkrasjóðum, að 1% af launum allra landsmanna ætti að renna í sjúkrasjóði. Af hverju skyldi hið háa Alþigi vera að setja slík lög, að skylda alla landsmenn til að borga í lífeyrissjóð eða í sjúkrasjóð? Til þess að fólkið sé tryggt. Til þess að menn séu tryggðir fyrir þeim áföllum sem þessir sjóðir bæta, þ.e. því áfalli að menn verði mjög gamlir og hafi ekki vinnuþrek, það bæta lífeyrissjóðirnir, ellilífeyrir lífeyrissjóðanna. Síðan er það örorkulífeyrir lífeyrissjóðanna sem bætir þá sem verða fyrir varanlegu tekjutjóni vegna örorku. Þá er það barnalífeyrir og makalífeyrir lífeyrissjóðanna sem bætir þá sem falla frá fyrir aldur fram og skilja eftir sig ómegð og að síðustu eru það sjúkrasjóðirnir sem bæta þá sem verða fyrir skammtímaörorku eða missa vinnugetuna í skamman tíma vegna sjúkleika.

Að síðustu ofan á allt þetta koma skaðabótalögin sem eiga að tryggja þá sem verða fyrir slysi sem þriðji aðili ber ábyrgð á. Slíkt er að mestu leyti tryggt í gegnum bílatryggingar.

Undir allri þessari fjórskiptu uppbyggingu á velferðarkerfinu stendur félagsþjónusta sveitarfélaganna sem á að dekka þá sem ekki eru tryggðir á annan hátt. Það hefur heldur ekki verið minnst á það í umræðunni, aldrei, að þeir sem ekki geta séð fyrir sér sjálfir eiga rétt á framfærslu hjá sveitarfélagi sínu.

[12:45]

Menn geta því ekki litið á þetta dæmi án þess að horfa á heildarmyndina. Það er grundvallaratriði í öllum tryggingarétti að menn séu ekki oftryggðir. Af hverju skyldi ekki mega gera vel við þá sem lenda í slysi og bæta þeim aðeins of mikið, jafnvel tvöfalt, eins og stundum kemur fyrir vegna skaðabótalaganna, að menn eru kannski með 70--80% hærri tekjur eftir tjón en þeir voru með fyrir vegna oftryggingar?

Það er vegna þess að allar tryggingar eru greiddar einhvers staðar. Menn mættu gjarnan hafa betur í huga að allar bætur eru greiddar af einhverjum. Það er ekki guð almáttugur sem greiðir þetta, það er ekki forsrh., það er ekki ríkisstjórnin sem greiðir þetta. Nei, það eru skattgreiðendur, það eru launagreiðendur og það eru bíleigendur sem greiða allar bætur með sköttum, með iðgjöldum til lífeyrissjóða, sjúkrasjóða eða vegna bifreiðatrygginga. Þess vegna er mjög mikilvægt að ekki sé um að ræða oftryggingu í kerfinu.

Eins og kerfið er uppbyggt í dag þá er um að ræða oftryggingu. Ekki er tekið tillit til nema 60% af þeim bótum sem menn fá úr lífeyrissjóði og sjúkrasjóði. Menn halda sem sagt 40% sjálfir og fá að öðru leyti tjónið fullbætt. Þetta finnst mér vera slæmt, þetta hefur komið fram í stórhækkuðum iðgjöldum bifreiðatrygginga og þetta hefur komið fram í því að velferðarkerfið er ekki eins skilvirkt og það gæti verið ella. Það bætir ekki nægilega vel þá sem verst eru settir vegna þess að það kostar of mikið fyrir hina sem fá of mikið út úr því. Þetta þurfa menn að horfa á alveg sérstaklega.

Það frv. sem við ræðum hér vinnur á móti þessu. Það á að hætta að taka tillit til þeirra skyldutrygginga sem menn eiga hjá lífeyrissjóði sínum og sjúkrasjóði sínum þannig að þetta er stórt skref aftur á bak og mun auka enn frekar oftrygginguna í kerfinu, auka enn frekar iðgjöldin til bílatrygginga, iðgjöldin til skaðabótatrygginga og er ekki á bætandi, herra forseti.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir kom inn á það í ágætri ræðu sinni og í andsvari við mig hér áðan að þetta væri lögverndaður sparnaður. Þetta er ekkert lögverndaður sparnaður, þetta er lögþvingaður sparnaður í lífeyrissjóðunum. Menn geta ekkert ráðið því, þetta er ekkert verndað af lögunum, þetta er þvingað. Maður sem vinnur einhvers staðar fyrir launum, segjum 100 þús. kr. á mánuði, verður að borga 10 þús. kr., 10% er yfirleitt lágmark, í lífeyrissjóð hvort sem hann vill eða ekki. Þetta er þvingað, þetta er nánast ígildi skatts.

Þetta er ríkið að gera, þessi lög eru sett til þess að maðurinn sé tryggður ef hann verður fyrir örorku, ef hann verður fyrir því slysi sem er einmitt verið að fjalla um hér. Ef ekki á að taka tillit til þeirra bóta sem hann fær úr lífeyrissjóði þegar úrskurða á skaðabætur út frá skaðabótalögunum gerist það hreinlega að maðurinn er allt of mikið tryggður. Hann fær nefnilega vegna framreiknings í dag úr lífeyrissjóði yfirleitt 60--70% af þeim launum sem hann hafði áður og hann þarf að sjálfsögðu ekki að borga í lífeyrissjóð af lífeyrinum sínum. Þannig að hann sparar það og hann sparar félagsgjaldið í stéttarfélagið. Það sparast líka sjúkrasjóðsiðgjald o.fl. og iðgjald atvinnurekandans þannig að maður sem er á lífeyri er kannski með 70--80% af þeim tekjum sem hann hafði áður vegna framreikningsins.

Ef á að fara að bæta enn betur og láta þessar bætur ekki hafa áhrif við úrskurð skaðabótalaganna þá er maðurinn hreinlega oftryggður. Enda kom það fram í fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. forsrh. að maður sem var með 80 þús. kr. sem var þá dálítið yfir lágmarkslaunum, það er dálítið síðan, tvö eða þrjú ár síðan þetta var, fékk um 140 þús. kr., ígildi 140 þús. kr. ef hann lenti í slysi. Hann stórhækkaði í launum við það að verða fyrir slysi. Það er ekki markmið bótalaga að menn hækki við það að lenda í slysum.

Við þá breytingu sem hér er lögð til mun sá munur enn aukast. Auðvitað viljum við gera vel við þá sem lenda í slysum og verða öryrkjar. Ekki er hægt að bæta vissa hluti með fé en ef það á að bæta tekjutap eiga bæturnar ekki að vera meiri en menn höfðu í tekjur áður. Ég er því eindregið á móti þessu frv. og ég mundi vilja ganga akkúrat öfuga leið, að taka að fullu tillit til allra bóta úr sjúkrasjóði og lífeyrissjóðum vegna þess að það er eðlilegt og ég gat um það við umræðu um skaðabótalögin á sínum tíma en ég gat þess jafnframt að ávöxtunarkrafan sem notuð er við útreikning á skaðabótalögunum, 4,5% ef ég man rétt, er of há sem vegur þar á móti því að þá eru bæturnar þeim mun lægri. Eftir því sem ávöxtunarkrafan er hærri í útreikningi á skaðabótum, eingreiðslunni, verða bæturnar lægri. Það vinnur á móti þessu og þess vegna væri eðlilegt, þess vegna gat ég samþykkt að tekið væri tillit til 60%. Auðvitað eru það engin rök, það á að miða við eðlilega ávöxtunarkröfu og það á að miða við eðlilegar bætur úr lífeyrissjóðum og draga þær að fullu frá, þ.e. þær bætur sem eru vegna skyldutryggingar sem hin háa löggjafarsamkunda hefur komið á.

Ég er því eindregið á móti þessu frv. og mér finnst þetta bera keim af því að menn ætli að vera góðir við alla og gleyma því hver borgar.