Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:08:40 (4357)

2001-02-08 14:08:40# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., Flm. ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Flm. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að fagna því að þessi vinna sé í gangi. Ég heyri að þar er ýmislegt á döfinni sem er til bóta og eykur rétt útlendinga í þessari stöðu.

Hæstv. ráðherra talaði um að þetta hefði verið orðað viljandi eins og það er nú til að koma í veg fyrir gervihjónabönd. Þannig er með reglurnar í samfélagi okkar að það eru alltaf einhverjir sem reyna að komast í kringum þær. Mér finnst hins vegar mikið atriði að réttarstaða útlendra maka Íslendinga í þessari stöðu verði tryggð. Það er mjög mikilvægt. Við megum náttúrlega ekki láta það hefta okkur að einhverjir gætu svindlað á lögunum. Við getum örugglega tekið á því.

Ég er sannfærð um að þessi hópur sem vinnur fyrir hæstv. ráðherra muni geta tekið á þessu. Ég fagna því að þetta mál muni þá kannski fara inn í þá vinnu og menn tryggi rétt þessara útlendinga. Staðan eins og hún er nú er ekki boðleg. Það er ekki hægt að setja þetta fólk í þá stöðu að missa atvinnuréttinn. Ég heyri að hæstv. ráðherra hefur skilning á því og vill taka á því. Við þurfum auðvitað að hafa það ljóst í lögunum að þessi réttur sé tryggður. Það er auðvitað ágætt að hafa vilyrði fyrir því að fljótt verði tekið á málum þeirra sem missa maka sinn, en það þarf auðvitað að hafa réttinn tryggðan í lögunum.

Ég fagna því, herra forseti, að þessi mál séu í þessum farvegi í ráðuneytinu og fagna vinnu hæstv. ráðherra í þessa veru.