Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 14:29:50 (4365)

2001-02-08 14:29:50# 126. lþ. 66.3 fundur 48. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (erlendir makar íslenskra ríkisborgara) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það er rétt að það komi hér fram út af orðum hv. síðasta ræðumanns sem þótti lög nr. 133 um atvinnuréttindi útlendinga vera forneskjuleg, að þessi lög eru frá 21. desember 1994 og þá var félmrh. hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir. Ég ber því út af fyrir sig ekki ábyrgð á þeirri forneskju að hafa sett lögin svona.

[14:30]

Ég tel hins vegar að ábyrgð atvinnurekandans á starfsmanni verði að vera skýr. Óhjákvæmilegt er að hann hafi skyldur við starfsmann sinn sem hann fær utan úr heimi. Og m.a. þess vegna beitti ég mér fyrir því að nektardansmeyjar frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins yrðu að fá atvinnuleyfi hér, vegna þess að við höfðum dæmi um það af því þær komu hingað sem listamenn eða voru flokkaðar sem slíkar, að næturklúbbaeigendur höfðu farið illa með einstaklinga sem þeir fengu hingað til að skemmta. Þær voru réttlausar, þær voru mállausar og bjargarlausar. Það var auðvitað ekki hægt.

Það hefur komið fyrir, því miður, að atvinnurekendur eða þeir sem fengið hafa atvinnuleyfi handa útlendingum hafa ekki staðið við það eða ekki getað staðið við það að láta þá hafa vinnu út ráðningartímann. Til dæmis eru nokkur dæmi um gjaldþrot, ég man eftir einu stóru gjaldþroti í fyrirtæki þar sem margir útlendingar voru að störfum og Vinnumálastofnun gekk í það að útvega þeim vinnu annars staðar, þá á öðru leyfi, þ.e. þannig að þeir gætu endað ráðningartíma sinn hér á landi.

Það er alveg rétt sem hér hefur komið fram að við erum háð þessu erlenda vinnuafli og við eigum að bjóða það velkomið. Það eru líklega um 3.000 útlendingar að störfum hér núna með atvinnuleyfi, þ.e. sem eru ríkisborgarar landa sem eru utan Evrópska efnahagssvæðisins, og svipaður hópur af borgurum af Evrópska efnahagssvæðinu sem ekki þurfa nein atvinnuleyfi og hafa sama rétt og við hér á landi.

Margt af þessu fólki er að setjast hér að. Það sýnir náttúrlega að því líður ekki illa og ekki er farið illa með það. Ég lét athuga fyrir nokkru hvað hefði orðið um þá sem fengu tímabundin atvinnuleyfi fyrir fjórum árum. Tekinn var hópur sem fékk atvinnuleyfi fyrir fjórum árum. 40% af þeim voru hér enn. Það segir manni að þetta fólk ætlar að vera um kyrrt og setjast hér að.

Ég vil láta þess getið og undirstrika sérstaklega að við eigum og þurfum að sinna þessu fólki miklu betur en við höfum gert og aðstoða það með skilvirkari hætti en við höfum gert, rjúfa einangrun þess, styðja það eftir því sem við mögulega getum til þess að verða gjaldgengir borgarar í samfélaginu, þ.e. geti tekið fullan þátt í samfélaginu, m.a. með íslenskukunnáttu o.s.frv. Í byrjun mars tekur nýbúamiðstöð til starfa á Ísafirði sem ég vænti að eigi eftir að vaxa og dafna og skila góðu verki.