Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:32:39 (4385)

2001-02-08 16:32:39# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var í raun aðeins eitt sem fékk mig til að veita andsvar við ræðu hv. þm. og það er að hann sagði að eini gallinn við kvótakerfið væri brottkastið. Kvótakerfið sem við höfum hér hefur fjölmarga galla. Þar er ekki bara um brottkastið að ræða heldur fyrst og fremst átök um eignarhaldið á veiðiheimildunum. Um það hefur stríðið staðið allan tímann og við höfum aldrei komist í að ræða af fullri alvöru um áhrif kvótakerfisins sem slíks sem veiðistjórnunartækis, svo uppteknir hafa menn verið af átökunum um eignarhaldið.

Hægt er að segja það í fáum orðum að munurinn á sóknarstýringarkerfi og kvótakerfi við stjórn fiskveiðum er aðallega fólginn í því að sóknarstýringarkerfið tekur fyrst og fremst mið af náttúrunni, menn beita þá sóknarstýringum með tilliti til náttúrunnar. Kerfið sem við höfum í gangi núna er reyndar fullt af sóknarstýringaratriðum og kvótakerfið væri ónothæft ef ekki væru notaðar sóknarstýringar. Hins vegar er kvótakerfið, eins og það virkar, þannig að það kemur náttúrunni verst þegar hún er veikust fyrir. Framsalsmöguleikarnir eru þannig að ef einn getur ekki fiskað þá getur hann látið annan gera það. Þegar lífríki er veikast fyrir er kvótakerfið verst, þá virkar það þyngst í náttúrunni. Það hefur verið reynslan og það er hægt að benda á tilvik t.d. varðandi þorskinn þar sem menn náðu ekki kvótanum. Lífríkið var þá illa statt og þá virkaði kvótakerfið af fullum þunga.