Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:34:52 (4386)

2001-02-08 16:34:52# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., Flm. PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Flm. (Pétur H. Blöndal) (andsvar):

Herra forseti. Ég kom inn á að bæði aflamarks- og sóknarmarkskerfi hefðu innbyggða eignarmyndun, þ.e. í báðum kerfum myndast verðmæti sem leiðir til sama vanda. Þegar ég gat um að eini ókostur aflamarkskerfisins væri brottkastið þá átti ég við innri vanda kerfisins eftir að því var komið á, burt séð frá eignarhaldinu. Ég hef sjálfur lagt fram tillögu um að leysa vandann með eignarhaldið með því að dreifa aflamarkinu á alla þjóðina. Mér er vel kunnugt um þennan vanda beggja kerfanna varðandi eignarhald á kvótanum, hvort sem þar er um að ræða sóknarkvóta eða aflamarkskvóta.

Það er rétt hjá hv. þm. að við erum með blöndu af hvoru tveggja og það er alveg stórhættulegt. Enn höfum við krókaleyfisbáta og slíka báta sem gera út á sóknarmark og það gengur ekki upp rökfræðilega að hafa kerfin hlið við hlið. Menn geta t.d. landað afla á milli báta úti á miðunum. Þó að ég sé ekki að segja að menn geri það þá er ég nokkuð viss um að einhvern tímann hafi komið fyrir að menn hafi látið afla úr aflamarksbát yfir í sóknarmarksbát á miðunum. Rökfræðilega ganga bæði kerfin ekki upp saman.

Ég ítreka að tæknilegu gallarnir við kerfin eru annars vegar brottkast og hins vegar að menn geri hættulega mikið út á afla og hugsi meira um magn en gæði í sóknarmarkskerfinu.