Umgengni um nytjastofna sjávar

Fimmtudaginn 08. febrúar 2001, kl. 16:36:49 (4387)

2001-02-08 16:36:49# 126. lþ. 66.8 fundur 171. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (afli utan kvóta) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 66. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég átti við með því að tala um að kvótakerfið væri óhugsandi án sóknartakmarkana er að í kvótakerfinu sem nú er í gildi --- þá er ég að tala um aflamarkskerfið en ekki sóknarstýrðu smábátana --- eru notaðar fjölmargar sóknarstýringar, þ.e. svæðalokanir, afskipti af því hvernig veiðarfærin eru, tímasetningar á því hvenær megi veiða og annað eftir því. Þetta þekkja menn. Þessar sóknarstýringaraðferðir eru margar og væri óhugsandi að hafa bara kvótakerfi á. Auðvitað verður að verja lífríkið. Það hafa menn horfst í augu við og gert það með þessum sóknarstýringum.

Vont að blanda saman kerfum. Út af fyrir sig er svolítið til í því. Það getur verið vont og getur vakið upp ákveðna möguleika til að menn misnoti aðstöðu sína. Sjálfsagt hefur það komið fyrir. Það er a.m.k. vitað að menn hafa verið ákærðir fyrir slíkt þó þeir hafi ekki verið dæmdir. Vandinn við allt þetta eftirlit er hve erfitt er að ætla að reka fiskveiðistjórn sem stendur og fellur með því að eftirlit sé í öllum hornum og passa þurfi upp á alla til að þeir svindli ekki.

Frv. sem hér er til umræðu er byggt á mjög góðri hugmynd um reglur sem gera kleift að ná árangri án einhvers konar lögregluaðgerða heldur með jákvæðum reglum sem verða til þess að menn hætta af sjálfsdáðum að sóa verðmætum með því að kasta fiski í sjóinn.

Ég vil þakka hv. þm. fyrir að flytja þetta frv. Það er þarft og ástæða til að flytja það sem oftast.