Lækkun skatta á fyrirtæki

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 15:16:12 (4402)

2001-02-12 15:16:12# 126. lþ. 67.1 fundur 277#B lækkun skatta á fyrirtæki# (óundirbúin fsp.), fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hv. þm. er bæði að reyna að leiða þetta mál inn á villigötur og reyna að gera úlfalda úr mýflugu í sambandi við ummæli mín. (Gripið fram í.) Er það ekkert svar að verið sé að vinna að þessu máli í fjmrn.? Er það ekkert svar að það séu ýmis skattamál fleiri en þetta, sem m.a. er vikið að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, sem núverandi ríkisstjórn hefur ekki enn getað komið í framkvæmd, mál sem lúta að lækkunum á sköttum? Er það ekkert svar að nauðsynlegt sé að halda áfram að betrumbæta skattaumhverfi fyrirtækja, m.a. með því að lækka skattprósentuna á þeim? Ég held að hv. þm. sem er gamall skattpíningarsinni, sérstaklega á fyrirtækjum, ætti að kynna sér það sem gerðist þegar skattprósenta fyrirtækja var lækkuð úr 50% í 30%. Hvað gerðist? Skatttekjur ríkissjóðs af þessum skattstofni jukust, m.a. vegna þeirra áhrifa sem þessi skattbreyting hefur haft hér í þjóðfélaginu og efnahagsumhverfinu.