Útboð á kennslu grunnskólabarna

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:09:23 (4434)

2001-02-12 16:09:23# 126. lþ. 67.91 fundur 285#B útboð á kennslu grunnskólabarna# (umræður utan dagskrár), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það hefur verið bæði áhugavert og spennandi að fylgjast með áformum Hafnarfjarðarbæjar um að fela einkaaðilum í útboði þjónustu eins grunnskólanna í Hafnarfirði. Hér eru nýjar og athyglisverðar hugmyndir á ferðinni sem geta gert skólastarfið enn fjölbreyttara og markvissara. Nú eru liðin tæplega sex ár frá því grunnskólarnir voru fluttir frá ríki til sveitarfélaga og óhætt er að segja að tilfærslan hafi tekist einstaklega vel og skólastarfið blómstrar hjá sveitarfélögunum í landinu sem hafa sýnt mikinn metnað í að sinna því sem best. Mörg þeirra gera raunar miklu meira en þeim er skylt samkvæmt lögum.

Menntmrh. getur samkvæmt grunnskólalögum heimilað sveitarfélögunum að brydda upp á nýjungum og tilraunum í skólastarfi. Slíkum tilraunum skulu ávallt sett eðlileg tímamörk og kveðið á um úttekt að tilraun lokinni. Það er ótvírætt samkvæmt grunnskólalögum að endanleg ábyrgð er hjá viðkomandi sveitarfélagi, en eftirlitsskyldan hjá ráðherra. Það er því tryggt í bak og fyrir að rétt sé að verki staðið samkvæmt lögum.

Sveigjanleiki í skólastarfinu og sjálfstæði hvers skóla til að móta starf sitt og taka upp nýjungar sem henta á hverjum stað eru afar mikilvæg í öllu skólastarfi og á þetta er m.a. lögð áhersla í nýjum kjarasamningum. Grunnskólalög og aðalnámskrá tryggja síðan að það sé gert innan þess lagaramma sem í gildi er á hverjum tíma. Þessi nýjung getur ef vel tekst til stuðlað að fjölbreytni og margbreytileika og þannig orðið lyftistöng í öflugu skólahaldi í grunnskólum landsins.

Ég verð að segja að sá forpokaði hugsunarháttur sem fram kemur í málflutningi stjórnarandstöðunnar gagnvart eðlilegri ósk sveitarfélagsins Hafnarfjarðar (GÁS: Og Framsóknarflokksins.) um að taka upp spennandi nýjung í skólastarfi vekur furðu. Það er hrópað ,,úlfur, úlfur`` og reynt að gera tortryggilega eðlilega ósk um nýbreytni og þróunarstarf í grunnskóla án þess að nein haldbær rök séu færð gegn málinu.