Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 16:33:11 (4443)

2001-02-12 16:33:11# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[16:33]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Ég er hlynntur þessu frv. til laga um að leggja niður Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins sem starfræktur hefur verið frá 1970. Hann er náttúrlega barn síns tíma. Mér finnst að breyta eigi Ríkisútvarpinu í hlutafélag og mynda afskriftasjóð, þá heitir þetta afskriftir sem væru til framkvæmda. Þannig er það í venjulegu hlutafélagi. Að sjálfsögðu er þessi þróun ekki á enda hjá útvarpinu. Að sjálfsögðu er uppbyggingunni ekki lokið. Henni er aldrei lokið. Þannig er það ekki hjá neinu fyrirtæki.

Mér finnst, herra forseti, að bjóða eigi út menningarhlutverk og öryggis- og dreifingarhlutverk Ríkisútvarpsins, gera kröfu um dreifingu og gera kröfu um hvaða menningu eigi að styðja. Hægt væri að gera kröfu um öryggi o.s.frv. sem reyndar er þegar inni í lögum um útvarpsstarfsemi almennt. Síðan þætti mér eðlilegt að Ríkisútvarpið yrði hlutafjárvætt og selt eins fljótt og auðið er. Ég skora á hæstv. menntmrh. sem einkarekstrarsinna, það kom fram hér í umræðum áðan, að hlutafjárvæða og selja eða gefa starfsfólki Ríkisútvarpsins allt fyrirtækið.