Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:00:56 (4453)

2001-02-12 17:00:56# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:00]

Árni Steinar Jóhannsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson virðist ekki átta sig á því að hann er í stjórnarsamstarfi við flokk sem keyrir harðsvíraða einkavæðingu án tilsvarandi hliðaraðgerða sem hugur margra --- og ég efast ekkert um að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson er í þeim hópi --- án þess að farnar séu þær leiðir sem hugur margra framsóknarmanna stendur til varðandi hliðarúrbætur. Við erum að tala um hvern málaflokkinn á eftir öðrum. Þetta gengur ekki upp og þess vegna erum við að ræða þessi mál. Það er billegt og það þýðir ekki fyrir framsóknarmenn að koma hér og segja: ,,Þetta verður ekki svona slæmt. Við göngum með Sjálfstfl. þessa leið, en við ætlum að gera hlutina öðruvísi þannig að þetta komi ekki niður á ykkur.`` Á landsbyggðinni finnast fjöldamörg dæmi um að nákvæmlega þetta hafi verið sagt og það hefur farið í þveröfuga átt. Ég nefndi hér bara ríkisfyrirtækin í því sambandi. Við hv. þm. hljótum að vera sammála um það. Við höfum ferðast báðir jafnmikið um landið og sjáum fyrir okkur ljóslifandi afleiðingarnar af þessari stefnu hjá þeim fyrirtækjum sem hafa verið einkavædd, þó svo þau séu ekki komin úr ríkiseigu.