Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:34:04 (4459)

2001-02-12 17:34:04# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Enn heldur hv. þm. uppteknum hætti að snúa út úr því sem hann les út úr þingskjölunum því hér kemur fram að 99% heimila hafi aðgang að sjónvarpi og það vanti enn á 41 bæ. Það stendur í þessum skjölum og við erum ekkert að hreykja okkur af neinu öðru en því sem staðreyndirnar mæla um.

Ég held að það sé nýmæli í greinargerð með þessari ágætu tillögu að taka upp úr frv. mínu meginrökstuðninginn fyrir því hvernig er unnt að leysa þetta mál og flytja það sem greinargerð með tillögunni sem hv. þm. flytur. Ég sé því að hv. þm. er að nálgast þær hugmyndir sem útvarpsstjóri leggur til og telur að séu raunhæfar til þess að þetta markmið náist. Það hefur komið fram hér við umræðurnar, ef hv. þm. hefur hlustað, að Landssíminn hefur það sem markmið að árið 2002 verði þessi ISDN-væðing á alla sveitabæi komin til sögunnar. Þetta er ekki flóknara en það ef hv. þm. fylgist með því sem hér er að gerast í þingsalnum. Og þess vegna er þetta í augsýn, þessi lausn sem þingmaðurinn gerir ráð fyrir að bæti þennan vanda miðað við þá greinargerð sem hann hefur sjálfur lagt fram hér á þinginu.