Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:35:48 (4461)

2001-02-12 17:35:48# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:35]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Ég legg ekki í vana minn að vera með slíkar upphrópanir hér í ræðustólnum eins og hv. þm. Það sem ég hef lagt hér til er að leggja niður ákvæði í lögum um Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Ég er ekki að gefa yfirlýsingar um eitthvað sem ég hef ekki umboð til þess að ákveða (JB: Þú ert yfirmaður þessara mála, hæstv. ráðherra.) Herra forseti. Má ég ljúka máli mínu? Þótt ég sé yfirmaður þessara mála þá verður hv. þm. að virða þau landslög sem gilda og þær reglur sem gilda. Hér fyrir jólin ákvað ráðherrann, sem ég hef beina heimild til, að gefa Ríkisútvarpinu leyfi til þess að hækka afnotagjöld Ríkisútvarpsins. Hver stóð þá upp í þingsalnum, herra forseti, og skammaði ráðherrann fyrir það mest allra að hafa notað þessa heimild? Það var viðkomandi þingmaður sem krefst þess nú að ég gefi yfirlýsingu hér sem ég hef enga lagalega heimild til að gefa. En fyrir nokkrum mánuðum gekk hann hér um þingsalinn og stóð í ræðupúltinu og réðst á mig sérstaklega fyrir að beita þeirri heimild sem ég hef lögum samkvæmt. (JB: Fyrir að brjóta lög um fjárreiður ríkisins.)