Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:43:09 (4466)

2001-02-12 17:43:09# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:43]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér fer fram afar áhugaverð umræða um framtíð Ríkisútvarpsins. Ég held að það sé rangt sem fram kom í máli hæstv. menntmrh. að þeirri skoðun vaxi fylgi að breyta beri rekstrarformi Ríkisútvarpsins og gera það að hlutafélagi. Ég held að þetta sé ekki rétt staðhæfing hjá hæstv. menntmrh. Ég held að þeirri skoðun vaxi fylgi að það beri að efla Ríkisútvarpið, stofnun í almannaeign og að sú stofnun eigi að lúta almannavaldi. Menn hafa á liðnum árum verið að gera lítið úr hlutverki stjórnmálanna og lýðræðislega kjörinna fulltrúa, hvort sem er í ráðum á borð við útvarpsráð eða öðrum ráðum, og talið þetta vera af hinu illa. Ég er ekki á þeirri skoðun. Síður en svo. Mér finnst eðlilegt að stofnun sem rekin er fyrir almannafé sé tengd almenningi í gegnum stjórnkerfi stofnunarinnar. Og ég hef gagnrýnt það að þegar stofnanir eru gerðar að hlutafélögum séu þær fjarlægðar þessum eiganda sínum. Það er staðreynd. Þannig höfum við orðið vitni að því að stofnanir sem hafa verið gerðar að hlutafélagi í eigu ríkisins hafa fjarlægst þessa stofnun hér. Það gerðist með Íslandspóst. Það gerðist með Landssímann. Þar var búið til eitt hlutabréf sem var sett undir einn hæstv. ráðherra, en aðgangur Alþingis, kjörinna fulltrúa almennings, var takmarkaður að þessum sömu stofnunum. Ég er því algerlega andvígur að Ríkisútvarpið verði gert að hlutafélagi með þessum hætti. Og þó að það sé að vissu leyti rétt hjá hæstv. menntmrh. að menn þurfi að vara sig á hugtakanotkun þarna þá hef ég hins vegar verið á því máli að tala um einkavæðingu. Réttara væri sennilega að tala um markaðsvæðingu þegar stofnun er gerð að hlutafélagi, þegar rekstrarfyrirkomulagi hennar er breytt.

[17:45]

Menn geta valið um mismunandi rekstrarfyrirkomulag og eftirlits- og aðhaldskerfi sem stofnanir í samfélaginu búa við. Þegar þeir breyta rekstrarfyrirkomulagi opinberra stofnana og gera þær að hlutafélögum þá er það gert með það að markmiði að innleiða annars konar lögmál, að þær séu reknar samkvæmt öðrum lögmálum en tíðkast hefur. Það er yfirlýst markmið. Menn telja þær verða sveigjanlegri, eiga auðveldara með að fjárfesta í öðrum fyrirtækjum og stofnunum og fara inn í markaðsumhverfið. Þetta eru rökin fyrir því að gera stofnanir að hlutafélögum. Vandinn er bara sá að á markaði gildir eftirlit markaðarins. Í hlutafélögum sinna hluthafarnir aðhalds- og eftirlitshlutverki. Sé þessi aðili aðeins einn, einn hæstv. ráðherra, þá virkar ekki þessi eftirlitsmekanismi, ef svo má að orði komast. Þess vegna hef ég alltaf skilið þá mjög vel, þótt ég sé þeim ósammála, sem vilja breyta opinberum stofnunum í hlutafélög og síðan selja þær og virkja þannig eftirlit markaðarins. Mér finnst ákveðin rök fyrir því þó að ég sé þessu ósammála. En þeir sem vilja breyta rekstrarfyrirkomulaginu með það eitt að markmiði að gera þau að hlutafélagi með einu hlutabréfi nýta sér ekki þá kosti markaðarins sem þeir þykjast þó sækjast eftir. Í þessu eru mótsagnir sem ósvarað er af hálfu þeirra sem tala fyrir markaðsvæðingunni.

Það sem við vitum hins vegar og kom réttilega fram í máli hv. þm. Jóns Bjarnasonar og Árna Steinars Jóhannssonar, er að þessi umræða hefur verið afar óheiðarleg. Menn hafa látið í veðri vaka að þeir séu að gera allt annað en í reynd vakir fyrir þeim. Það er staðreynd. Menn segja að fyrir þeim vaki ekki annað en að gera stofnanirnar að hlutafélagi en síðar þegar á hólminn kemur eru þær seldar. Þetta er reynslan hérlendis og þetta er reynslan erlendis.

Ég man eftir því í umræðu um Landssímann á sínum tíma þegar ákveðið var að gera hann að hlutafélagi. Þá var því ítrekað lýst yfir af hálfu þeirra hæstv. ráðherra sem fóru með málefni símans að ekki stæði til að selja þessa stofnun, að ekki stæði til að selja hlutabréfin. Að sjálfsögðu var það svikið. Að sjálfsögðu, segi ég vegna þess að þetta er sú formúla sem hefur víðast hvar verið fylgt.

Ég vildi koma hér upp og gera grein fyrir mínum sjónarmiðum og andæfa þeirri staðhæfingu sem kom fram hjá hæstv. menntmrh. að þeirri hugsun vaxi fylgi að gera Ríkisútvarpið að hlutafélagi. Hvað hefur hæstv. ráðherra fyrir sér þegar hann fullyrðir þetta? Ég held að hann hafi ekkert fyrir sér í þessu. Ég held að það sé almennur vilji fyrir því á Íslandi að reka sterkt ríkisútvarp í eigu þjóðarinnar, sem lýtur stjórn þjóðarinnar en er ekki fært á bak við tjöldin með sjónhverfingum eins og hlutafélagaformið hefur reynst vera. Ég veit hins vegar að það mundi auka völd eins manns, þ.e. þessa sama hæstv. ráðherra. Hann færi með alræðisvald í stofnuninni sem handhafi eins hlutabréfs. Síðan leyfa þeir sér sem tala með þessum hætti að láta sem ekkert annað vaki fyrir þeim en að auka sjálfstæði stofnunarinnar. Þeir ætla að færa sjálfum sér alræðisvald yfir þessum stofnunum.