Ríkisútvarpið

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 17:50:36 (4467)

2001-02-12 17:50:36# 126. lþ. 67.9 fundur 413. mál: #A Ríkisútvarpið# (framkvæmdasjóður) frv., menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[17:50]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru ágætar umræður um Ríkisútvarpið. Ég vil svara hv. þm. þegar hann spyr um á hverju ég byggi þá skoðun mína að því vaxi fylgi að Ríkisútvarpinu verði breytt í hlutafélag í eigu ríkisins. Ég dreg þá ályktun út frá umræðum sem hafa verið í þinginu á undanförnum missirum og ég hef tekið þátt í. Annars staðar þar sem ég kem og menn ræða við mig um málefni Ríkisútvarpsins þá verð ég einnig var við að þeir sem eru gjörkunnugir útvarpsstarfsemi hér á landi og annars staðar átta sig á því að þetta er skynsamleg leið til að tryggja stöðu Ríkisútvarpsins við núverandi aðstæður hér á landi eins og menn hafa gert annars staðar á Norðurlöndunum. Ég verð var við þetta þegar ég les norrænar skýrslur. Það er unnið að skýrslugerð varðandi þessa þætti á vegum norrænu ráðherranefndarinnar og upplýsingum safnað um hvernig þessi starfsemi þróast víðs vegar um löndin. Af þessu sé ég að menn telja að rekstrarskipulag með þessum hætti sé síst af öllu til þessu fallið að draga úr starfsemi útvarps í almannaeigu eða ríkisútvarpa, ,,public service``-stöðva eins og þær eru kallaðar á ensku. Ég sé þessi teikn mjög víða.

Ég sé jafnframt að á Norðurlöndunum og annars staðar í Evrópu eiga þessar stöðvar í vaxandi mæli undir högg að sækja vegna samkeppniskrafna og annarra slíkra sjónarmiða. Menn telja alls staðar nauðsynlegt að bregðast við til að tryggja þær í sessi. Ég hef aldrei talað öðruvísi um þetta mál en að fyrir mér vaki að tryggja Ríkisútvarpið í sessi sem ríkisrekið fyrirtæki, en með nýjum formerkjum til þess að það standi sig betur í samkeppninni. Þessar tvær mínútur duga mér ekki til að nefna fleira en ég gæti haldið lengi áfram að telja upp þau teikn sem ég sé máli mínu til stuðnings.