Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Mánudaginn 12. febrúar 2001, kl. 19:20:46 (4493)

2001-02-12 19:20:46# 126. lþ. 67.10 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 67. fundur, 126. lþ.

[19:20]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var nokkuð skýrt hjá hv. þm. og það er þá ljóst að hv. þm. vill banna íþróttir þar sem heilinn er í hættu. Ég skora á hv. þm., sem er læknismenntuð eins og fram hefur komið, að fara yfir hvaða íþróttir þetta eru. Ég verð að segja fyrir mína hönd að ef frv. kæmi frá hv. þm. sem tæki á þessu og skapaði jafnræði meðal íþróttagreina mundi ég hugleiða mjög stuðning við það frv. Stuðningur minn við þetta frv. er fyrst og fremst vegna þess að ég tel ekki næg rök fyrir því að gera svona upp á milli íþróttagreina. Ég hefði talið það eðlilega viðmiðun að nota Ólympíuleikana. En ef hægt er að færa rök fyrir því að við getum haft önnur viðmið en aðrar þjóðir og það sé gert með rökum, og þá með því að skapa jafnræði meðal íþróttagreina, þá finnst mér eðlilegt að við skoðum það.

Hins vegar varðandi það sem hv. þm. sagði um að heimila þjálfun í íþróttagreininni þá finnst mér eðlilegt að það verði skoðað í menntmn. að finna einhvern flöt á því að hægt væri að ganga svo langt sem þetta frv. gerir ráð fyrir í einhverjum áföngum, þannig að hugsanlega væri hægt að ná meirihlutsamþykkt fyrir því að heimila þjálfun áhugamannahnefaleika. Þá er auðvitað spurning hvort ekki eigi að leyfa sýningu eins og gert er í ýmsum íþróttagreinum. Það er mjög gjarnan þannig á íþróttamótum að fyrstu kynningar á ýmsum íþróttum eru einmitt með því að leyfðar eru sýningar en ekki keppni. Mér sýnist því að hér sé flötur til samkomulags í málinu ef það getur veitt málinu framgang og ég held að eðlilegt sé að það verði skoðað mjög nákvæmlega í menntmn.