Skýrsla auðlindanefndar

Þriðjudaginn 13. febrúar 2001, kl. 14:27:39 (4502)

2001-02-13 14:27:39# 126. lþ. 68.91 fundur 291#B skýrsla auðlindanefndar# (umræður utan dagskrár), TIO
[prenta uppsett í dálka] 68. fundur, 126. lþ.

[14:27]

Tómas Ingi Olrich:

Herra forseti. Staða íslensks sjávarútvegs er að mörgu leyti einstök. Á sama tíma og aðrar þjóðir Evrópu deila um hvernig skuli skipta á skattgreiðendur byrðum af rekstri sjávarútvegsins deilum við hér á landi um hvernig arðinum af sjávarútveginum skuli skipt milli þeirra sem taka áhættuna í rekstri sjávarútvegsins og hinna sem enga áhættu taka. Svo miklar deilur hafa risið um þetta mál að það stofnar rekstrarumhverfi sjávarútvegsins í hættu og hefur leitt til þess að menn hafa leitað úr þessari atvinnugrein. Óvissan og óróinn í kringum sjávarútveginn er þegar farinn að valda því að hlutabréf í sjávarútvegsfyrirtækjum eru fallandi og ungt fólk forðast þessa atvinnugrein, sækir hvorki í skipstjórnarnám né í sjávarútvegfræði.

Íslenskur sjávarútvegur er einn best rekni sjávarútvegur í heimi hér og framleiðni íslenskra sjómanna meiri en annars staðar gerist. Jafnframt er rétt að minna á að sjávarútvegur er burðarásinn í atvinnulífi landsbyggðarinnar sem á nú undir högg að sækja sem aldrei fyrr. Allt hið sérkennilega og innantóma tal um byggðakvóta leiðir hjá sér þá meginstaðreynd í sjávarútvegi og fiskvinnslu að kvótinn er nú þegar hjá byggðunum. Sérstakur byggðakvóti sem úthlutað væri af stjórnmálamönnum verður ekki til nema aðeins með því að taka kvótann frá byggðarlögunum þar sem hann er nú. Hvers vegna hefur sjávarafli sótt til Dalvíkur eftir leiðum markaðskerfisins? Er það ekki vegna þess að á Dalvík er frábært frystihús sem menn sjá sér hag í að setja meiri afla í gegnum? Ætla þeir góðu aðilar sem vilja byggja upp sérstakan byggðakvóta að taka aflann með einhverjum fyrningarleiðum af Dalvíkingum og úthluta honum annað? Ég held að það sé rétt að menn horfist í augu við þetta.

Þegar rætt er um að ná sátt um fiskveiðistjórnina með sérstakri gjaldtöku á handhafa veiðiheimilda, en 90% þeirra eru á landsbyggðinni, er vandinn þessi: Hvernig er þetta hægt án þess að spilla sjávarútveginum sem atvinnugrein og veikja enn frekar stöðu landsbyggðarinnar? Það er deginum ljósara að gjald á sjávarútveginn er gjald á landsbyggðina. Þetta er viðurkennt í skýrslu auðlindanefndarinnar þó lítið fari fyrir þeirri viðurkenningu. Það er einnig ljóst að fylgjendur auðlindagjalds krefjast í raun enn meiri hagræðingar og samþjöppunar veiðiheimilda en nú er. Það er best að þetta liggi alveg ljóst fyrir. Ef meiningin með gjaldtöku er að veikja ekki sjávarútveginn sem atvinnugrein þá felst í kröfunni um auðlindagjald aukinn þrýstingur á frelsi til hagræðingar og framleiðniaukningar. Verkefnið sem við stöndum frammi fyrir er vandleyst, þ.e. að leysa þetta mál án þess að sjávarútvegurinn bíði af því skaða og án þess að breytingarnar verði enn ein áþjánin sem lögð er á landsbyggðina. Það verður að viðurkenna að svigrúmið til þess er afar lítið eins og málið hefur verið lagt fyrir af auðlindanefndinni.

Ég vil vekja athygli á því að hingað hefur hver þingmaðurinn á fætur öðrum, ég nefni sérstaklega hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson, komið upp til að lýsa því yfir að ástæða sé til að taka veiðiheimildirnar af landsbyggðinni þar sem þær eru nú, fyrna þær, láta borga fyrir þær og útdeila þeim aftur. Láta menn sér virkilega til hugar koma að slíkar aðferðir muni verða til að styrkja landsbyggðina?