Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:02:47 (4563)

2001-02-14 14:02:47# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., EMS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Rétt er að byrja á því að fagna því að hæstv. samgrh. hefur hug á að ganga til samninga við heimamenn til þess að tryggja þá þjónustu sem hér á skortir. Hins vegar blasir það við eftir svör hæstv. ráðherra að því miður virðist þessi hlekkur hafa gleymst sem er svo mikilvægur til að sjúkraflug sé raunverulega tryggt til ýmissa staða.

Ljóst er að þjónusta þyrlu verður ekki í sama mæli jafngóð á t.d. norðausturhorni landsins þar sem við eigum eingöngu eina þyrlu á suðvesturhorninu. Þess vegna er mjög alvarlegt þegar gengið var þó til þeirra samninga sem gerðir voru um sjúkraflugið að þessi hlekkur skuli hafa gleymst. Það er því miður ekki gott að hæstv. ráðherra skuli ekki hafa gefið um það yfirlýsingu að gengið verði í að leysa bakvaktarvandann, a.m.k. til bráðabirgða, þar til gengið verður til samninga við heimamenn um lausn vandans til framtíðar.