Sjúkraflug

Miðvikudaginn 14. febrúar 2001, kl. 14:08:28 (4568)

2001-02-14 14:08:28# 126. lþ. 70.2 fundur 405. mál: #A sjúkraflug# fsp. (til munnl.) frá samgrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég get tekið undir að Reykjavíkurflugvöllur er mjög mikilvægur hvað varðar sjúkraflug og tel að hann hafi miklu hlutverki að gegna til framtíðar í því. Aftur á móti vil ég aðeins leggja orð í belg um ástandið eins og það er núna og hefur verið.

Nú veit ég að eins og ástandið hefur verið í vetur hefur það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir sjúklinga. Ég þekki dæmi þess að ekki hefur verið unnt að vera með viðunandi sjúkraflug. Ég vildi gjarnan fá svar við því hér hver ber ábyrgðina þegar skaði hlýst af því að ekki er viðunandi sjúkraflug og sjúklingurinn ber skaða af.

Nú hafa menn verið að sinna þessu frá tveimur ráðuneytum, þ.e. heilbrrn. og samgrn., og ég hefði gjarnan viljað fá það fram í umræðunni hver ber ábyrgðina þegar skaði hlýst af hjá sjúklingi þegar ekki er veitt viðunandi sjúkraflugsþjónusta og verið er að þvæla sjúklingnum á milli staða vegna þess.