Samningar um sölu á vöru milli ríkja

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 10:45:07 (4637)

2001-02-15 10:45:07# 126. lþ. 71.1 fundur 429. mál: #A samningar um sölu á vöru milli ríkja# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[10:45]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. utanrrh. að það hefur þýðingu fyrir Ísland og Noreg að hafa möguleika á að gera fyrirvara eins og hér hefur komið fram.

Ég kem í stutt andsvar til að bera fram spurningu til ráðherra. Er það fyrst og fremst skortur á lagasetningu sem hefur gert það að verkum að við höfum ekki gerst aðilar að þessum samningi sem hefur verið svo lengi í gildi og er það fyrst og fremst vegna þessara laga um lausafjárkaup sem sett voru á síðasta ári að við getum nú staðið við skuldbindingar gagnvart þessum sáttmála eða er það kannski að einhverju leyti jafnframt vegna þess að það sé óvíst hvaða gildi Haag-samningurinn frá 1955 muni hafa vegna tilkomu sáttmálans? Ég sé að í greinargerðinni er tekið fram að reglur sáttmálans frá 1980 sem við erum að fjalla um eru bæði skýrari og afmarkaðri en Haag-samningurinn frá 1964 og að óvíst sé hvert gildi Haag-samningsins frá 1955 verður með tilkomu sáttmálans. Þegar maður lítur yfir þessa tillögu og sér hversu langt er síðan þessi samningur var gerður þá vaknar þessi spurning sem ég nú ber fram til hæstv. ráðherra.