Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 10:54:48 (4641)

2001-02-15 10:54:48# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[10:54]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Fyrst vil ég taka það fram að mér finnst jákvætt að verið er að breyta fyrirkomulagi þess hvernig við berum samþykktir eða ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar inn í þingið. Það hefur verið þannig að ekki hefur verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt. Það hefur verið látið nægja að Alþingi samþykki nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana, enda kom þetta fram í framsögu hæstv. ráðherra. En nú er verið að taka upp þessa nýju aðferð, og var gert á síðasta ári ef ég man rétt, að koma með málin inn í sérstakri þingsályktun og það gefur Alþingi tækifæri til þess að fara yfir það hvað felst í þessum ákvörðunum og hvað það muni hafa að segja fyrir lagasetningu hjá okkur. Ég er alveg sannfærð um að þetta eru betri vinnubrögð en hafa viðgengist og þannig eigum við að vinna.

Ég hafði mjög mikinn áhuga á þessari tillögu sem hér er mælt fyrir um að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á tilteknum viðauka um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi og um viðurkenningu á starfsmenntun, eins og segir hér í fyrirsögn. E.t.v. átti ég von á því að við værum að fara út í kannski nokkuð víðtækari samning eða ákvörðun. En staðreyndin er sú að í mörg ár, t.d. innan Norðurlandanna, hefur verið barátta fyrir því t.d. á mennta- og menningarsviði að ná gagnkvæmri viðurkenningu prófa og réttinda og formlega er það gengið í gegn á Norðurlöndum. En staðreyndin er sú að á þessu máli, viðurkenningu prófa og réttinda, eru miklir hnökrar. Fólk heldur e.t.v. að það geti farið t.d. frá Íslandi til Danmerkur og notið fullkominna réttinda samkvæmt prófum sem það hefur tekið og réttinda sem það hefur aflað sér en í ljós kemur að enn í dag er þetta ekki viðurkennt eða einhverjir hnökrar á viðurkenningunni.

Ég vil láta það koma strax fram að mér finnst það eitt það mikilvægasta í alþjóðastarfi okkar, hvort heldur er á Norðurlöndum eða í Evrópustarfinu, að tryggja þessi réttindi. Við höfum leitað mjög sterkt eftir því að okkar unga fólk eigi rétt á því í gegnum samningana að sækja skóla í Evrópu, að njóta sömu réttinda í Evrópu og æskufólk þeirra þjóða og við viljum því líka að þegar fólk hefur aflað sér tiltekinnar menntunar eða réttinda að það sé það mikið samræmt að réttindi og menntun gildi á þessu svæði sem við höfum gert að svo miklu samvinnu- og samráðssvæði í raun réttindalega og efnahagslega eins og EES-svæðið hefur reynst vera.

Það er dálítið þungt að fara yfir þessi mál sem koma frá EES, samanber þetta sem stendur hér efst á bls. 3 um 3. liðinn:

,,Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 88/2000, um að fella inn í VII. viðauka við EES-samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/42/EB, um tilhögun viðurkenningar á menntun og hæfi með tilliti til atvinnustarfsemi sem fellur undir tilskipanir um afnám hafta og bráðabirgðaráðstafanir og um viðbót við almennu kerfin til viðurkenningar á menntun og hæfi.``

Það er auðvitað alveg ljóst að venjulegur maður skilur ekki þessa setningu fyrr en hann er búinn að lesa hana allmörgum sinnum. Því vaknar auðvitað sú spurning hvort í þessum flókna texta felist í raun einhvers konar fyrirvari eða höft á því sem við raunverulega viljum. En það sem við viljum er viðurkenning prófa, réttinda og menntunar.

Það kemur líka fram á bls. 3 að flest ákvæði tilskipunarinnar séu þegar í gildi á Evrópska efnahagssvæðinu en ákveðinn hópur sem hefur menntun og starfsþjálfun á þeim sviðum sem tilskipunin tekur til er þó þannig settur nú að hann hefur engan viðurkenndan rétt á að fá menntun sína og starfsþjálfun viðurkennda. En nú eru sett ákvæði sem bæta úr þessu. Svo segir:

,,Meðan tilskipunin var í undirbúningi var haft víðtækt samráð við öll helstu fagsambönd í Evrópu sem hlut eiga að máli og náðist samstaða um að breyta ekki ákvæðum eldri tilskipana um skilyrði sem þarf að fullnægja til að geta lagt stund á tiltekið starf í öðru ríki. Með þessum skilyrðum eru ekki gerðar miklar kröfur um menntun``--- ég vek athygli á þessu --- ,,á viðkomandi sviði en þeim mun meiri til starfsþjálfunar og starfsreynslu.``

Að því leyti er þessi ákvörðun sem við erum hér að taka inn nokkuð öðruvísi en það sem við höfum verið að fást við þegar við erum að fjalla um gagnkvæma viðurkenningu prófa og réttinda því þarna er verið að leggja mat á starfsþjálfun og starfsreynslu. Við vitum að þetta getur haft áhrif hérlendis. Við erum þarna þá meira að tala um minni menntun, meiri þjálfun og starfsreynslu sem er kannski einkenni á mörgum þeirra sem Íslendingar sækja til starfa hingað heim og þá legg ég mikla áherslu á að vera talsmaður þess að allt sé gagnkvæmt. Við viljum fá mikil réttindi fyrir okkur erlendis og þá skulu þau réttindi jafnframt gilda hér. Það er samt nokkuð öðruvísi að fást við þetta heldur en hefðbundin skírteini og próf. En ég sé að hér er lögð áhersla á það að meðan tilskipunin var í undirbúningi var haft víðtækt samráð við öll helstu fagsambönd Evrópu. Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort það sé ekki nokkuð ljóst að hérlend fagsambönd hafi að einhverju leyti komið að því samráði. Hafa hérlend fagsambönd komið að þessu víðtæka samráði sem haft var meðan tilskipunin var í undirbúningi með tilliti til þess hvers eðlis þessi viðurkenning á starfsmenntun er?

Ég tek líka eftir því að mörg starfanna sem tilskipunin tekur til eiga ekki við hér á landi. En þau sem eiga við hér falla undir iðn.- og viðskrn. Mér sýnist að það séu fyrst og fremst þeir sem eru sjálfstætt starfandi sem falla undir þetta.