Breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 11:32:47 (4651)

2001-02-15 11:32:47# 126. lþ. 71.2 fundur 444. mál: #A breyting á VII. viðauka við EES-samninginn (starfsmenntun)# þál., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[11:32]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. er í raun að taka undir það sem ég benti á. Það er góðra gjalda vert að samræma reglur að sjálfsögðu en það er ekki sama á hvaða forsendum sú samræming fer fram.

Ég hef verið að vara við því að ef sú samræming er á forsendum alþjóðafjármagnsins eins og svo sannarlega átti sér stað varðandi MAI-samningsdrögin, Multilateral Agreement on Investment, þá er betra heima setið en af stað farið. Ég held að sérstaklega smá ríki og fámenn á borð við okkar þurfi að gæta ýtrustu varfærni og gerast ekki aðilar að samkomulagi sem skerðir möguleika okkar til lýðræðislegra ákvarðana. En við eigum að sjálfsögðu að hafa samleið með öðrum þjóðum, við eigum að taka þátt í umræðu um þessi efni og ég hef trú á að að slíku sé unnið á vegum utanrrn. Verkalýðshreyfingin reynir einnig fyrir sitt leyti að koma að þessum málum. Ég kem því ekki hér upp til að lýsa andstöðu við það starf sem verið er að vinna en bendi á þessi mikilvægu atriði og ekki síst það að okkur beri að horfa til allra átta.