Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 12:49:16 (4673)

2001-02-15 12:49:16# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., DrH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[12:49]

Drífa Hjartardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er um að ræða tvær tveggja mínútna lotur og það er spurning um stig sem keppendur fá. Keppni í ólympískum hnefaleikum verður að fara fram undir eftirliti íþróttasambands þess lands sem hún á að fara fram í og hver iðkandi verður að gangast undir stranga læknisskoðun fyrir og eftir hverja keppni. Verði iðkandi fyrir meiðslum verða að líða 60--90 dagar þar til hann má keppa aftur. (Gripið fram í: Ef hann ...) Hlustaði hv. þm. ekki á ræðu mína áðan þar sem kom fram að mjög lítil meiðsl eru í þessari keppnisgrein og innan við 1% rothögg? Þetta er mjög alvarlegur misskilningur og rangsnúningur sem kemur frá hv. þm.

Mönnum er skylt að bera hlífar og eins og ég sagði áðan eru þetta aðeins tveggja mínútna lotur og það er ekki hægt að bera þetta saman við atvinnumannahnefaleika, ég held því að þingmaðurinn sé á mjög miklum villigötum.