Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 14:34:36 (4703)

2001-02-15 14:34:36# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., Flm. GunnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[14:34]

Flm. (Gunnar Birgisson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kemur ekki á óvart að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sé á móti þessu máli. Hann og flokkur hans virðast vera á móti flestum framfaramálum sem flutt eru á þingi og mætti halda að þessi flokkur hafi verið stofnaður fyrir siðaskipti.

Málflutningurinn er náttúrlega alveg með eindæmum. Box er sjálfsvarnaríþrótt, ekki ofbeldi. Þingmaðurinn eyddi hér miklum tíma í ofbeldisdýrkun. Hvers konar bull er þetta eiginlega sem þingmaðurinn er að þvæla? Þetta er ólympísk íþrótt, búin að vera það frá 1904 og við erum þátttakendur á Ólympíuleikum. Búið er að leggja fram rannsókn eftir rannsókn sem sýna að hnefaleikar eru með hvað lægstu meiðslatíðni af öllum íþróttum. Talað var um knattspyrnu áðan og ég kem kannski að henni á eftir, en ég vil minna á að í fyrra var þingmaðurinn hér hoppandi á öðrum fæti um þingsali og það gerðist í knattspyrnu. Hann getur kannski útskýrt það fyrir þingheimi.