Lögleiðing ólympískra hnefaleika

Fimmtudaginn 15. febrúar 2001, kl. 15:07:33 (4719)

2001-02-15 15:07:33# 126. lþ. 71.6 fundur 235. mál: #A lögleiðing ólympískra hnefaleika# frv., KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 71. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég lýsti því yfir áðan að ég treysti ekki iðkendunum til að fara eftir reglunum jafnvel þó reglurnar væru settar. Ég hef ýmislegt fyrir mér í því, t.d. viðtal sem ég vitnaði hér hvað eftir annað í í umræðunum í vor, í menntaskólablaði frá Menntaskólanum í Reykjavík þar sem ungir menn lýstu því yfir að það væri svo afskaplega gaman að berja vini sína, svo gaman þegar árásargirnin gysi upp í manni þegar búið væri að kýla mann og blóðga, eins og sagt var í viðkomandi viðtali. Í því viðtali kemur fram að drengirnir sem æfa þessa áhugamannahnefaleika, sem þeir kalla áhugamannahnefaleika af því að þeir eru með höfuðhlífar, iðka þessa íþrótt hér á Íslandi í dag, meira af kappi en forsjá og viðurkenna að t.d. fylgist enginn með því að tímalengd í lotunum sé sú sem hún á að vera. Þeir þekkja alveg reglurnar.

Ég treysti þeim ekki til að fara frekar eftir þeim þó að þær væru skráðar eða hengdar upp á vegg í íþróttasalnum.