Kjarasamningar opinberra starfsmanna

Mánudaginn 19. febrúar 2001, kl. 17:34:47 (4782)

2001-02-19 17:34:47# 126. lþ. 72.10 fundur 209. mál: #A kjarasamningar opinberra starfsmanna# (aðild að stéttarfélagi) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 126. lþ.

[17:34]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hv. þm. Pétri H. Blöndal er fremur í nöp við stéttarfélögin og finnur þeim flest til foráttu. Honum þykir ótækt að launafólki sé gert að greiða gjald til að standa straum af kostnaði við rekstur stéttarfélaganna. Mig langar aðeins í örfáum orðum að velta því upp hver viðfangsefni þessara félaga eru.

Þau eru fyrst og fremst til þess smíðuð að standa vörð um rétt launafólks á vinnustaðnum og í samfélaginu almennt. Því miður reynir oft á þessa varðstöðu. Iðulega er brotið á fólki. Stundum er það leyst fyrir milligöngu stéttarfélagsins, í öðrum tilvikum enda slík mál fyrir dómstólum. Þá stendur launafólk sameiginlega að slíku en einstaklingnum er ekki gert að heyja sína baráttu einn og óstuddur.

Þessa samstöðu vilja margir brjóta. Þeirrar viðleitni hefur gætt í Evrópu og víðar í heiminum að reyna að brjóta samstöðu launafólks á bak aftur. Menn leggja iðulega upp í þá vegferð á sama hátt og hv. þm. Pétur H. Blöndal gerir, tala um einstaklingsfrelsið og rétt einstaklingsins til að standa utan félags. En jafnvel þótt menn leggi upp í þessa för með þetta göfuga markmið þá getur það auðveldlega snúist upp í andhverfu sína. Ég ætla að taka dæmi. Í ríkjum þar sem atvinnuleysi hefur verið mikið hefur það iðulega gerst, við þekkjum dæmin frá Bretlandi, Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar í Evrópu að atvinnurekandinn stillir umsækjanda um starf upp við vegg og segir að hann sé reiðubúinn að ráða hann til vinnu með einu skilyrði, að hann standi utan stéttarfélags. Þá hefur þetta gerst sem ég nefndi, að krafan um félagafrelsi hefur snúist upp í andhverfu sína. Atvinnurekandinn hefur valið, launamaðurinn hefur ekkert val.

En það er annað sem verkalýðshreyfingin gerir, stéttarfélög gegna öðru mikilvægu hlutverki sem snýr að sjálfsögðu að baráttu fyrir auknum og bættum rétti launafólks, veikindarétti, lífeyrisréttindum, orlofsréttindum, sjúkratryggingum og þannig mætti áfram telja. Að sjálfsögðu höfum við heyrt, víðar en hér í sal Alþingis, því haldið fram að auðvitað eigi allir að njóta þessara réttinda en jafnframt að vera frjálsir til að velja um hvort þeir greiði til stéttarfélaganna, sömu félaga og hafa barist fyrir þessum réttindum.

Herra forseti. Í þessum fáu orðum vil ég lýsa mjög eindreginni andstöðu gegn þessu frv. sem gengur út á að brjóta niður samstöðu launafólks.