Niðurgreiðsla á húshitun með olíu

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:07:42 (4909)

2001-02-21 14:07:42# 126. lþ. 75.6 fundur 383. mál: #A niðurgreiðsla á húshitun með olíu# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:07]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Vegna fyrirspurnar frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur vil ég taka fram eftirfarandi sem svar við fyrstu spurningu:

Hitun með olíu hefur minnkað mikið á síðustu áratugum þó hægt hafi á þeirri þróun á síðustu árum. Samkvæmt spám orkuspárnefndar er gert ráð fyrir að olíuhitun hverfi að mestu á næstu árum þó olía verði notuð áfram til hitunar á einangruðum svæðum og að litlu leyti hjá kyntum hitaveitum.

Í húshitunarspá orkuspárnefndar frá 1996 er talið að um 1,3% af öllu hituðu íbúðarhúsrými á landinu sé hitað upp með olíu. Hæst var þetta hlutfall á Vestfjörðum 7%, Vesturlandi 5%, Austurlandi 4,5%, Norðurlandi 3%, Suðurlandi 2,1%, Suðurnesjum 1% og á höfuðborgarsvæðinu 0,2%.

Langstærst þeirra svæða þar sem um olíuhitun er að ræða er Grímsey en þar búa um 100 manns. Í Grímsey er raforka til lýsingar framleidd í dísilrafstöð og ekki er um aðra upphitunarmöguleika að ræða en olíu. Á Hólsfjöllum á Möðrudal eru sjö býli sem hituð eru með olíu, þar háttar til svipað og í Grímsey að því leyti að þau býli eru ekki tengd raforkukerfinu og raforkan því framleidd í dísilrafstöð. Sömu sögu er að segja af Flatey á Breiðafirði.

Önnur hitun með olíu er einkum í einstökum húsum víða um land sem oft eru það gömul að ekki er talið svara kostnaði að breyta hitakerfinu fyrir raforku. Búast má við að með tímanum verði hætt að nota þessi hús. Einnig má nefna sumarbústaði víðs vegar á landinu sem hitaðir eru með olíu.

Svar við annarri spurningu:

Olíustyrkir til húshitunar voru lagðir niður fyrir tæplega 20 árum í kjölfar verulegrar olíuverðslækkunar sem þá varð. Tilgangur þess var m.a. að stuðla að frekari nýtingu innlendra endurnýjanlegra orkugjafa eins og hitaveitna og rafmagns. Segja má að stefna stjórnvalda í húshitunarmálum á undanförnum árum hafi byggt á þremur meginstoðum. Í fyrsta lagi hefur ríkið með ýmsum hætti stuðlað að stofnun hitaveitna þar sem því verður við komið. Þar hefur ýmsum aðgerðum verið beitt og má þar nefna jarðhitaleitarátak sem nú hefur staðið í nokkur ár og styrki til stofnunar nýrra hitaveitna.

Í öðru lagi hafa niðurgreiðslur til rafhitunar verið auknar. Á síðasta ári var varið 790 millj. kr. til þessa verkefnis en árið 1998 var þessi fjárhæð 480 millj. kr.

Í þriðja lagi hefur verið unnið að ýmsum verkefnum á sviði orkusparnaðar en sum þeirra hafa sérstaklega beinst að því að lækka húshitunarkostnað íbúðarhúsa. Það er skoðun ráðuneytisins að olíustyrkir falli ekki undir þær aðgerðir til lækkunar húshitunar sem mælt er fyrir um í gildandi byggðaáætlun. Þess má geta að í allri undirbúningsvinnu sem lá til grundvallar 12. tölul. gildandi byggðaáætlunar var fjallað um samanburð á rafhitun og hitaveitum. Til grundvallar þessum lið þál. voru m.a. lagðar skýrslur Háskólans á Akureyri og verkfræðistofunnar Fjarhitunar. Í framangreindum skýrslum er eingöngu fjallað um húshitun með rafmagni og hitaveitum.

Eins og fram kom í svari mínu við fyrirspurn áðan hafa niðurgreiðslur vegna rafhitunar aukist verulega á undanförnum árum auk þess sem olíuverð hefur hækkað. Þetta hefur leitt til lakari stöðu þeirra sem ekki eru tengdir veitukerfum orkufyrirtækjanna og nota olíu til kyndingar. Í ljósi þessara staðreynda hef ég ákveðið að fela nefnd á vegum ráðuneytisins að kanna stöðu þessara mála og gera tillögur um aðgerðir vegna lögbýla sem ekki eru tengd veitukerfum orkufyrirtækjanna og varðar einnig þau hús sem eins er ástatt um þó ekki sé um lögbýli að ræða.