Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:20:45 (4914)

2001-02-21 14:20:45# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., viðskrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Á þskj. 732 hefur hv. þm. Ásta Möller borið fram fyrirspurn og sem svar við fyrri spurningunni vil ég segja þetta:

Umboðsmaður barna sendi viðskrn. bréf, dags. 12. nóvember 1999, þar sem segir að hún skori á ráðuneytið að það beiti sér fyrir því að samkeppnisráð setji reglugerð um nánari almennar reglur um framkvæmd 22. gr. samkeppnislaga, samanber 30. gr. sömu laga. Markmið slíkra reglna eigi m.a. að vera það að börn yngri en 18 ára njóti þeirrar lágmarksverndar sem þau eiga rétt á í þessum efnum af hálfu stjórnvalda, eins og segir í erindi umboðsmanns.

Ráðuneytið sendi erindi umboðsmanns barna til umsagnar Samkeppnisstofnunar en í VI. kafla samkeppnislaga er fjallað um eftirlit með óréttmætum viðskiptaháttum, þar með talið villandi auglýsingum og neytendavernd þar að lútandi. Samkeppnisstofnun óskaði álits ráðgefandi nefndar samkeppnisráðs, auglýsingnefndar, um málið en samkvæmt 7. gr. samkeppnislaga skal nefndin fjalla um auglýsingar og gæta þess að þær veiti ekki rangar, ófullnægjandi eða villandi upplýsingar og brjóti ekki að öðru leyti í bága við ákvæði 21. og 22. gr. samkeppnislaga.

Auglýsinganefnd skipa þrír fulltrúar, formaður sem kjörinn er úr hópi aðalmanna í samkeppnisráði en hina nefndarmennina skipar ráðherra að höfðu samráði við helstu hagsmunaaðila er hlut eiga að máli, þar með talin samtök neytenda. Í bókun sem viðskrn. hefur borist frá fundi auglýsinganefndar hinn 8. nóvember sl. segir m.a.:

,,Auglýsinganefnd hefur borist, framsent frá viðskiptaráðuneytinu, erindi umboðsmanns barna til ráðuneytisins þar sem fjallað er um börn og auglýsingar.

Auglýsinganefnd hefur rætt mál þetta á alls þremur fundum. Farið hefur verið yfir ákvæði samkeppnislaga um börn og auglýsingar ásamt þeim reglum, þar með talið siðareglum, sem gilda í þessum málaflokki. Einnig hefur verið litið á það sem nágrannaþjóðir okkar hafa gert.

Samhljóða niðurstaða nefndarmanna er að ekki er talin ástæða til að setja frekari reglur um börn og auglýsingar en þær sem þegar koma fram í samkeppnislögum og öðrum lögum og reglum sem gilda um auglýsingar.``

Þau lög og reglur um börn og auglýsingar sem þarna er vísað til eru auk samkeppnislaga stefnumarkandi reglur um sjónvarpsauglýsingar, útvarpslög, siðareglur Sambands ísl. auglýsingastofa, siðareglur Alþjóðaverslunarráðsins og ályktun ráðherra norrænu ráðherranefndarinnar á sviði neytendamála um markaðsfræðslu og auglýsingar á internetinu. Í ljósi þessarar bókunar og álits Samkeppnisstofnunar um þetta mál þykir ekki ástæða til að setja nánari reglur um börn og auglýsingar umfram það sem getið er um í samkeppnislögum og öðrum þeim lögum og reglum sem gilda um slíkar auglýsingar.

Svar við síðari fyrirspurn: Í áður tilvitnaðri bókun auglýsinganefndar samkeppnisráðs segir:

,,Jafnframt samþykkti nefndin að fela Samkeppnisstofnun að taka saman á einn stað öll gildandi lög og þær reglur sem í notkun eru á markaðnum þar sem fjallað er um aðkomu barna að auglýsingum. Telur auglýsinganefnd rétt að beina því til viðskiptaráðuneytisins hvort koma megi því efni sem til er um börn og auglýsingar betur á framfæri við markaðinn.``

Samkeppnisstofnun hefur lýst því yfir að allt efni þar sem með einum eða öðrum hætti er fjallað um börn og auglýsingar verði sett undir einn lið á heimasíðu stofnunarinnar. Viðskrn. mun jafnframt kanna hvernig gildandi lögum og reglum sem varða börn og auglýsingar megi betur koma á framfæri við fyrirtæki og neytendur í landinu. Þess vegna eru ekki uppi um það áform í ráðuneytinu að beita sér fyrir því að fyrrnefndur bæklingur verði þýddur á íslensku.