Börn og auglýsingar

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:26:25 (4916)

2001-02-21 14:26:25# 126. lþ. 75.7 fundur 459. mál: #A börn og auglýsingar# fsp. (til munnl.) frá viðskrh., DrH
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:26]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ástu Möller fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Eins og hún kom inn á áðan hefur umboðsmaður barna fengið margar ábendingar um auglýsingar. Má þar nefna t.d. auglýsingu sem kom frá tóbaksvarnanefnd, heilsíðuauglýsingu í dagblaði sem sýndi mynd af barni og hönd sem drap í sígarettu á kinn þess, og líka ábendingu vegna auglýsinga frá módelskóla þar sem því var haldið fram að markhópurinn sé einkum unglingsstúlkur 14--15 ára og gjarnan fylgdi auglýsingum þessum mynd af grindhoruðum stúlkum og bent á að það sé óheppileg fyrirmynd fyrir börn á þessum aldri. Ég held að við eigum að hafa í huga að í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna stendur að það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang. Það er mjög varhugavert að börn séu notuð sem agn til þess að fá þau eða foreldra þeirra til að kaupa tilteknar vörur og ég hvet hæstv. ráðherra til að íhuga betur hvort ekki eigi að þýða þennan bækling sem hv. þm. Ásta Möller minntist á í ræðu sinni.