Réttur til að kalla sig viðskiptafræðing

Miðvikudaginn 21. febrúar 2001, kl. 14:36:27 (4921)

2001-02-21 14:36:27# 126. lþ. 75.8 fundur 457. mál: #A réttur til að kalla sig viðskiptafræðing# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Hér er spurt um mál sem eru ákveðin í lögum en ekki af ráðherra því samkvæmt lögum frá árinu 1981 er það svo að rétt til að kalla sig viðskiptfræðinga, hagfræðinga eða nota heiti sem felur í sér orðin viðskiptafræðingur eða hagfræðingur, hafa þeir menn hér á landi sem fengið hafa til þess leyfi ráðherra. Þeir sem lokið hafa prófi úr viðskiptadeild Háskóla Íslands þurfa ekki slíkt leyfi ráðherra. Þar segir alveg skýrt að þeir sem útskrifast úr viðskiptadeild Háskóla Íslands mega kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga án þess að hafa til þess sérstakt leyfi.

Síðan er það svo að í 2. gr. þessara laga segir að engum megi veita leyfið sem hér er rætt um nema hann hafi lokið fullnaðarprófi í viðskiptafræði eða hagfræði við háskóla eða annan æðri skóla. Það er engin spurning um það að Viðskiptaháskólinn á Bifröst, Háskólinn í Reykjavík og einnig Háskólinn á Akureyri eru háskólar. Þess vegna falla þeir sem þaðan hafa lokið fullnaðarprófi í viðskipta- og hagfræði undir þennan lagatexta. Þessum mönnum má hins vegar ekki veita þetta starfsheiti nema fyrir liggi álit þriggja manna nefndar sem menntmrh. skipar og er einn nefndarmaður samkvæmt tilnefningu Félags viðskipta- og hagfræðinga, hann er nú Ólafur Ísleifsson hagfræðingur; Kristján Jóhannsson lektor er tilnefndur af viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands og síðan er einn skipaður án tilnefningar. Hann er nú Arnór Guðmundsson, deildarstjóri í menntmrn., og er hann formaður nefndarinnar.

Það er skýrt samkvæmt þessum lögum að nemendur við aðra háskóla en Háskóla Íslands þurfa að sækja til nefndarinnar leyfi og fá síðan staðfestingu menntmrh. á því að þeir fái að bera þetta starfsheiti. Rísi ágreiningur vegna notkunar á þessu starfsheiti þá sker ráðherra úr þeim ágreiningi.

Ég er ekki sértakur talsmaður þess að slík lög séu almennt í gildi hér á landi. Ég tel þessi lög barn síns tíma og að ekki ætti að vera bundið í slík lög hvort menn hafi rétt til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hagfræðinga. Það á heldur að vera bundið við þau próf sem þeir taka frá viðkomandi skólum, hvort sem er á Íslandi eða erlendis. Lögin eru hins vegar í gildi og þeim hv. þm. sem hafa áhuga á því að taka af skarið og nefna fleiri skóla í þessum lögum en Háskóla Íslands eru í sjálfu sér hæg heimatökin að gera tillögur um breytingar á lögunum. Þá yrði það Alþingis að taka afstöðu til þess.

Hvað menntmrn. varðar þá lítum við þannig á að vegna þess að við höfum þessa nefnd og samráðsskyldu samkvæmt lögunum, við Félag viðskipta- og hagfræðinga auk viðskiptadeildar Háskóla Íslands, þá sé skynsamlegt af okkar hálfu að efna til samráðs. Við höfum reynt að koma á samstarfi um endurskoðun á þessum lögum en því miður virðist það einhverjum vandkvæðum bundið að fá menn sem hafa þessi starfsheiti eða óska eftir þeim til að setjast niður með fulltrúum ráðuneytisins til að koma sér saman um tillögur um breytingar á lögunum. Við munum þó halda því starfi áfram.

Án tillits til þess finnst mér eins og ég sagði að þessi lög séu barn síns tíma. Raunar er ég einnig þeirrar skoðunar að telji menn að lög eigi að kveða á um rétt manna til að kalla sig viðskiptafræðinga eða hvað annað þá eigi það ekki að vera á verksviði menntmrn. að veita slík réttindi eða fjalla um það heldur þeirra ráðuneyta sem fara með málefni viðkomandi starfsgreinar. Menntmrn. hefur t.d. ekki þá sérþekkingu á sviði viðskipta- og hagfræði sem ræður úrslitum um það hvort eitt starf er betur fallið til að hljóta þessi réttindi, eitt próf fremur en annað. Við eigum að huga að inntaki menntunarinnar en aðrir hafa með starfsemina sjálfa að gera. Í þessu tilviki væri e.t.v. eðlilegt að iðn.- og viðskrn. fjallaði um þennan þátt málsins eins og menntmrn. fjallar um kennara á öllum skólastigum og þá starfsmenn sem starfa á verksviði ráðuneytisins. Mér þætti ekki óeðlilegt að viðskrn. og iðnrn. fjölluðu um réttarstöðu þeirra sem vildu kalla sig einhverjum starfsheitum sem veita rétt til starfsemi á verksviði sem fellur undir það ráðuneyti.