Viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:08:45 (4928)

2001-02-26 15:08:45# 126. lþ. 76.1 fundur 321#B viðgerðir á varðskipunum Ægi og Tý# (óundirbúin fsp.), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég held að hv. þm. hljóti að geta gefið sér svör við fyrri spurningunni, þ.e. hvort ég sé sammála þessari niðurstöðu. Auðvitað er ég ósammála þessari niðurstöðu, ósammála því að þessi vinna fari fram erlendis. Ég tel mig hafa beitt mér í þá átt að svo yrði ekki. Hins vegar er málið þannig vaxið eins og það var kynnt fyrir mér að þarna hafi verið óhjákvæmilegt að ganga að lægra tilboði, sem hafi verið frá Póllandi, en íslenska tilboðinu. Þetta voru a.m.k. tölur á blaði en síðan koma fram nýjar upplýsingar í sambandi við úttekt VSÓ Ráðgjafar sem setur þetta mál aftur í umræðuna. Ég vil fyrst og fremst segja það miðað við þetta allt saman og hvernig þetta mál er vaxið að það er von mín að a.m.k. þetta mál verði til þess að það verði betur og á annan hátt staðið að málum í framtíðinni hvað varðar viðgerðir á varðskipunum og ýmis önnur mál sem snúa að útboðum af hálfu ríkisins. Ég hef þá tilfinningu að hægt sé að ganga lengra í því að vinna verk hér á Íslandi en er í dag. Hvort sú tilfinning mín er rétt veit ég ekki en hins vegar vil ég að hv. þm. viti að unnið var að þessu máli af hálfu þriggja ráðherra til lokastigs. Lengi vel leit málið þannig út að íslenska tilboðið væri lægra. Þetta varð niðurstaðan og við sitjum uppi með það. En ég er eins og hv. þm. ekkert sérstaklega ánægð með að þetta skyldi verða niðurstaðan.