Andúð gegn útlendingum

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:26:29 (4939)

2001-02-26 15:26:29# 126. lþ. 76.1 fundur 323#B andúð gegn útlendingum# (óundirbúin fsp.), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:26]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ljóst er, eins og hv. þm. benti á, að þessi verkefni heyra undir fleiri ráðuneyti en dómsmrn. En ég ítreka að ég tel að það sem komið hefur fram og kemur fram í þeim frv. sem nú eru til meðferðar á hinu háa Alþingi, geti hjálpað okkur í því sambandi að breyta viðhorfum. Auðvitað er ljóst og ég hygg að allir séu sammála því að hjálpa þarf útlendingum að aðlagast íslensku samfélagi. Þess vegna er t.d. gert ráð fyrir því að allir þeir sem hingað koma fari á íslenskunámskeið. Við höfum heyrt talað um að börn og unglingar verði fyrir einelti í skólum hér á landi og það er vissulega alls ekki nógu gott. En ég vil líka benda á að talsmenn Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem hafa komið hingað til lands telja að Íslendingar hafi staðið sig mjög vel í því að taka á móti flóttamönnum og það sé til fyrirmyndar hvernig þeir hafa staðið að þeim málum.