Útlán bankanna til einstaklinga

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 15:41:08 (4950)

2001-02-26 15:41:08# 126. lþ. 76.1 fundur 326#B útlán bankanna til einstaklinga# (óundirbúin fsp.), JóhS
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Í svari hæstv. viðskrh. á Alþingi komu fram upplýsingar um mikla aukningu á lánum til einstaklinga á einu ári, einkum á yfirdráttarlánum sem vaxið hafa um 58% á einu ári. Skuldir einstaklinga í heild fyrir utan íbúðalán hafa vaxið um 34% á þessum tíma. Endurlánað erlent lánsfé hefur einnig aukist mikið, þ.e. þrefaldast á einu ári hjá einstaklingum og tvöfaldast hjá fyrirtækjum. Yfirdráttarlán sem bera allt að 21--23% vexti hafa gott betur en fjórfaldast síðan 1995 að raungildi og aukist úr 14 milljörðum í 60 milljarða. Þessi okurlán, sem ekki er hægt að nefna öðru nafni, eru nú orðin 10% af heildarskuldum heimilanna sem voru 600 milljarðar í desember sl. og höfðu aukist um 100 milljarða á einu ári.

Ég vil því leyfa mér, herra forseti, að beina fyrirspurn til hæstv. bankamálaráðherra um viðbrögð hennar við þessari gífurlegu aukningu á skuldum heimilanna og auknum útlánum til einstaklinga, hvort hún telji eðlilegar skýringar á þeim okurkjörum og vöxtum sem hér viðgangast í bankakerfinu. Telur hún ekki tilefni til aðgerða til að sporna við þessari þróun? Óttast hæstv. bankamálaráðherra ekki að heimilin stefni í verulega greiðsluerfiðleika?