Samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli

Mánudaginn 26. febrúar 2001, kl. 16:57:51 (4960)

2001-02-26 16:57:51# 126. lþ. 76.2 fundur 412. mál: #A samningur milli Evrópubandalagsins og Íslands og Noregs um beiðni um hæli# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 76. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir það með þingmanninum að þegar ráðamenn þrýsta þingmálum í gegnum þingið með óeðlilegum hraða þá eiga þeir að gefa sér tíma til að vera viðstaddir umræðuna. Það er svo einfalt.

En ástæðan fyrir því að ég kem í andsvar eru orð þingmannsins um að aðild að þeim samningum, sem hér eru til umræðu, sé bakdyraleið inn í Evrópusambandið og í því efni vísaði hann til Samfylkingarinnar.

Herra forseti. Það er algjör óþarfi að gera öðrum upp óheilindi í umræðunni þó maður sé sjálfur gagntekinn af gagnrýninni. Veröldin er nefnilega ekki svart-hvít. Það er á öllum málum mismunandi hliðar. Samfylkingin er mjög fylgjandi talsverðum alþjóðlegum samskiptum og sérstaklega að efla réttindi á sem flestum sviðum. En hvað Evrópusambandið varðar og aðild að því er Samfylkingin með ákveðna vinnu í gangi, m.a. að skoða kosti og galla aðildar og það hefur margoft komið fram. Samfylkingin hefur ekki sett fram stefnu hér um og mun ekki gera það nema að undangenginni mikilli umræðu og í stofnunum flokksins. Ef Samfylkingin á eftir að taka ákvörðun um aðild að Evrópusambandinu og ákveða að það sé vænn kostur fyrir Ísland þá mun það verða í kjölfar samþykkta í stofnunum flokksins og þá mun það vera með reisn. Það liggur hins vegar alls ekki fyrir og ég vil sérstaklega taka það fram að sú sem hér stendur hefur aldrei, ekki úr þessum ræðustól, né nokkurs staðar annars staðar, lýst sig fyrir fram fylgjandi eða andvíga í þessum efnum, en mjög fylgjandi að hér fari fram hreinskiptin og öflug umræða um kosti og galla. Þetta vildi ég sagt hafa í tilefni að ræðu þingmannsins.