Hjúskaparlög

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:00:49 (5008)

2001-02-27 15:00:49# 126. lþ. 77.4 fundur 410. mál: #A hjúskaparlög# (könnun hjónavígsluskilyrða) frv., BH
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:00]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að taka undir með þeim sem hafa talað og bent á að það sé að mörgu leyti vafasamt að mismuna á þann hátt sem má með rökum segja að frv. geri í þeirri mynd sem það er nú á milli þeirra sem eru annars vegar íslenskir ríkisborgarar og hins vegar í þeim tilvikum þegar annað hjónaefna eða bæði eru erlendir ríkisborgarar.

Ég vil samt nálgast þetta viðfangsefni út frá öðru sjónarmiði. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að ég tel mjög mikilvægt að könnun hjónavígsluskilyrða sé örugg, hún sé áreiðanleg og það skýr að nánast sé útilokað að fólk geti gengið í hjónaband þegar það er í öðru hjónabandi fyrir vegna þess að slíkt getur eðli málsins samkvæmt verið afskaplega óheppilegt að mörgu leyti. Mjög mikilvægt er að sú framkvæmd að kanna hjónavígsluskilyrði og sjá til þess að lög tálmi ekki ráðahagnum sé ábyggileg.

Þess vegna fagna ég þeirri hugmynd, sem frv. leggur reyndar aðeins til varðandi ákveðinn hluta fólks, að sýslumenn og löglærðir fulltrúar annist þessa könnun. Ég tel mun eðlilegra að slík framkvæmd sé höfð á og vil því leggja til að þetta nái til allra sem gifta sig hér á landi, þ.e. að hver einstaklingur fari til sýslumanns eða til löglærðs fulltrúa sýslumanns þar sem fram fari könnun á hjónavígsluskilyrðum. Þetta skal hver einstaklingur gera fyrir sig. Það má eiginlega orða það þannig að hver einstaklingur fyrir sig fari og klári sitt fyrra líf, ef við getum svo að orði komist, og því sé ekki blandað á neinn hátt við þá rómantík, vil ég segja, sem einkennir það þegar tveir einstaklingar ákveða að rugla saman reytum sínum og ganga í hjónaband. Þess vegna tel ég þetta fyrirkomulag vera mjög æskilegt og eðlilegt að þetta sé algjörlega aðskilið og að fólk fari til sýslumanns, fái vottorð um að fyrra hjónabandi sé formlega lokið og fái skilríki þar um. Ég tel það í sjálfu sér vera eitthvað sem eigi ekki að blanda saman við það að öðru leyti nema þetta vottorð liggi fyrir, en að öðru leyti eigi ekki að blanda því saman við það þegar tveir einstaklingar hafa síðan fundið sér vígslumann til þess að vígja þau í annað hjónaband.

Ég verð að segja það, herra forseti, að ég tel þetta og þennan aðskilnað á könnun hjónavígsluskilyrða annars vegar og svo hins vegar á því að óska eftir vígslu í hjónaband, hvort sem það er nú hjá presti eða öðrum vígslumanni, vera meira í takt við þau gildi sem hjónabandið er reist á og í raun og veru í meiri takt við kristilegt hugarfar að fólk komi nánast að hreinu borði þegar það stofnar til nýs hjónabands. Þess vegna vil ég leggja orð í þennan belg, herra forseti, og þá fyrst og fremst með það í huga að hv. allshn. skoði það mjög alvarlega hvort ekki sé unnt að breyta frv. þannig að þetta sé aðskilið hvað alla varðar, þ.e. alla sem sækja hér um vígslu. Ef sú breyting verður gerð þá væri ekki verið að mismuna fólki eftir því af hvaða bergi það er brotið eða hver ríkisborgararéttur þess er, auk þess sem ég held að slíkt fyrirkomulag mundi vera mjög til bóta. Það er auðveldara, tel ég vera, fyrir löglærðan fulltrúa hjá sýslumanni eða sýslumann að gera þessa könnun en fyrir þann vígslumann eða prest sem er að fara að gifta fólk aftur. Að lokinni slíkri breytingu á frv. get ég a.m.k. stutt það af heilum hug en ætti erfitt með að styðja frv. í þeirri mynd sem það er núna, herra forseti. Ég vil því hvetja hv. allshn. til að taka þessar athugasemdir alvarlega til skoðunar um að gera slíka breytingu.