Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:36:05 (5018)

2001-02-27 15:36:05# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. ráðherra. Endurtaktu lygina nógu oft, þá verður henni trúað. Því miður hendir þetta oft og tíðum hv. þm. Jón Bjarnason hér úr stólnum. Það gerðist áðan.

Það hafa aldrei komið upp hugmyndir um einhverja stórkostlega uppbyggingu og flytja stofnanir landbúnaðarins á Keldnaholtið, ekki í minni tíð. Það hefur enginn rætt það við mig. Þetta er fjarstæða. Við höfum staðið í því eins og hv. þm. veit og hefur stutt okkur í að byggja upp skólastaðina, breyta skólanum á Hvanneyri í háskólastað og höfum uppi áform um að reyna að styrkja þá staði eins og við getum. Því segi ég, burt með svona rugl hér úr ræðustólnum, það á ekki við.

Í öðru lagi vil ég segja við hv. þm. sem skilur vel framfarir og hefur staðið í þeim sjálfur og gert það með myndarlegri hætti en margir aðrir forstjórar ríkisstofnana, hann á hrós skilið og hans verk voru góð á Hólum, að ég veit að hv. þm., þó að hann sé í vinstri grænum, þó að hann sé neikvæður og þó að hann vilji vera afturhald, þá skilur hann ákveðinn nútíma, hv. þm. Jón Bjarnason á Hólum, hann skilur að þróunin er ör. Mikið er að gerast í líftækniheiminum. Íslenski landbúnaðurinn á þar mikla möguleika, það veit ég að hv. þm. skilur. Það skilja stjórnarmenn í Rannsóknastofnun landbúnaðarins sem hafa óskað eftir að fá sama frelsi, sams konar frelsi fyrir landbúnaðinn sem atvinnuveg og fyrir sjávarútveginn og iðnaðinn, og telja sig eiga möguleika, bæði á innlendum og erlendum vettvangi til að taka þátt í vísindalegum rannsóknum til að byggja upp atvinnu á Íslandi.

Þetta litla frv. snýr að því að gefa Rannsóknastofnun landbúnaðarins takmarkað frelsi til að haga sér eins og sjávarútvegurinn og iðnaðurinn í að þróa ný verkefni. Það er ekki síst að líftæknifélagsskapnum sem þetta snýr. Við höfum t.d. verið að taka þátt í hörverkefni. Hér er mikill áhugi fyrir hreinni náttúru og erlend fyrirtæki sem vilja koma hér með rannsóknir inn o.s.frv. Þannig að möguleikarnir eru miklir.