Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:47:17 (5023)

2001-02-27 15:47:17# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Auðvitað mun landbn. fara vel yfir þetta mál í þinginu, en það liggur fyrir að það eru tiltölulega lítil verkefni sem er verið að fara fram á að sé hægt að vinna þannig. Í fyrsta lagi yrði stjórnin samkvæmt frv. að fjalla um það í hverju tilfelli og landbrh. einnig að gefa samþykki sitt fyrir því. Þetta yrði mjög takmörkuð ábyrgð þannig að áhætta stofnunarinnar verði takmörkuð við hlutafjárframlög.

Það liggur fyrir að atvinnulífið, sem hefur sem betur fer heilmikla peninga, hefur mikinn áhuga á líftækni og mörgum öðrum atriðum sem snúa að landinu og landbúnaðinum, vill koma og leggja fram fjárframlög og þróa verkefni. Þetta yrði fyrst og fremst leiðin til þess að geta haldið áfram, tekið þátt í þeim verkefnum af hálfu rannsóknastofnunar með þessum hætti. Að öðru leyti er ekki um eina einustu breytingu að ræða hvað Rannsóknastofnun landbúnaðarins varðar. Hún er ekki að fara að ganga neina aðra nýja braut. Hún er að fara þær brautir sem atvinnulífið fer í hinum samkeppnisatvinnuvegunum --- þetta er allt samkeppni um mannafla og þekkingu --- að gefa unga fólkinu sem vill sinna landbúnaðinum líka þau tækifæri að geta gert það. Þetta er leið samtímans má segja eins og kemur í ljós hjá hinum atvinnuvegunum. Ég mæli því með því að þingið leyfi þessa litlu tilraun og sjái þá þróun.

Ég hef ekki trú á öðru en að Rannsóknastofnun landbúnaðarins, ef af þessu yrði, stæði uppi sem sterkari vísindastofnun og drægi til sín á margan hátt hæfara fólk eftir en áður.