Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:50:30 (5025)

2001-02-27 15:50:30# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum hugsað okkur lítið barn sem kemst upp á fæturna. Það er gott að fylgja því fyrstu sporin. Það er alveg eins að stofna fyrirtæki. Vísindin eru að komast að ákveðinni niðurstöðu og sjá að þetta er grundvöllur. En það þarf hjálp áfram til þess að styðja það fyrstu skrefin. Þannig að þetta er til þess að Rannsóknastofnun landbúnaðarins geti með sterkum aðilum komið að vísindalegum rannsóknum og þróað áfram ákveðið fyrirtæki á einhverju sviði, hvort sem það er í líftækni, hörvinnslu eða einhverju allt öðru í landbúnaðinum. Kannski til fimm ára aldurs eða svo. Síðan verður þetta sjálfbjarga fyrirtæki sem verður selt. Þannig hafa vísindamennirnir á RALA getað fylgt barni sínu eftir alla leiðina. Ég er að leggja áherslu á þessa sýn.

Hv. þm. má heldur ekki láta sér bregða þó maður svari útúrsnúningi sem er hreinn og klár. Hv. þm. má eiga það að hann var málefnalegur, það kann ég að meta, og var ekki með útúrsnúninga sem er margbúið að hrekja hér úr stólnum. Það er óþolandi framferði þegar menn eru alltaf með sömu tugguna og sama útúrsnúninginn eins og henti áðan hv. flokksbróður hans.

Ég held að þetta sé ekki grunnur að neinum gífurlegum breytingum en þó er það svo -- atvinnulíf sem ætlar að lifa verður auðvitað að fylgjast með. Við Íslendingar, hvort sem við erum í landbúnaði, sjávarútvegi eða öðrum atvinnugreinum, verðum auðvitað að fylgjast með þróuninni í heimshluta okkar og hvernig atvinnulífið kemst áfram. Íslenskur landbúnaður og landið okkar á gríðarleg tækifæri og við þurfum að fá hið menntaða afl heim og gefa því tækifæri til að þróa nýja atvinnustarfsemi. Þess vegna vona ég að þessi litlu dótturfyrirtæki RALA og einhverra annarra verði að öflugum fyrirtækjum sem skapa hér atvinnu. Þetta er leið til að gefa landbúnaðinum sömu möguleika og öðrum greinum eins og ég hef margsinnis rakið hér.