Rannsóknir í þágu atvinnuveganna

Þriðjudaginn 27. febrúar 2001, kl. 15:54:34 (5027)

2001-02-27 15:54:34# 126. lþ. 77.6 fundur 414. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (aðild RALA að hlutafélögum) frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 77. fundur, 126. lþ.

[15:54]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég held að það sé hins vegar nauðsynlegt að halda til haga ákveðnum grunnþáttum þessa máls þannig að þeir tapist ekki úr þessari umræðu. Hæstv. ráðherra hefur látið í veðri vaka og raunar sagt að hér sé um lítið mál að ræða og eðlilegt í ljósi nútímans og nýrra viðhorfa. Það má til sanns vegar færa. En gagnvart hinu háa Alþingi og formskipan þessara mála er auðvitað um stórmál að ræða. Með samþykkt þessa frv. óbreytts er hið háa Alþingi í raun að veita hæstv. landbrh. og stjórn RALA sjálfdæmi um hversu mörg hlutafélög verða stofnuð út úr þessu móðurfyrirtæki og undir hvaða formerkjum. Eftir samþykkt þessa frv. kemur hinu háa Alþingi og hv. alþingismönnum það ekkert við. Þeir verða ekki spurðir um það.

Það sem meira er, herra forseti, að um leið og tiltekin verkefni móðurfyrirtækisins, þessa ríkisfyrirtækis sem Rannsóknastofnun landbúnaðarins er, eru færð úr höfuðstöðvunum í þessi meintu dótturfyrirtæki eitt eða fleiri, tíminn verður að leiða það í ljós, eru líka settir á það mjög alvarlegar og ákveðnar hömlur, hvort alþingismenn geti fengið upplýsingar um gang mála hjá þessum háeff-væddu dótturfyrirtækjum. Það er margföld reynsla fyrir því á hinu háa Alþingi að um leið og hf. er sett fyrir aftan fyrirtæki þá er það lenska hæstv. ráðherra að segja við hv. þm. þegar þeir spyrja um gang mála hjá þessum háeff-væddu ríkisfyrirtækjum, sem ég vil kalla svo, að þeim komi það ekkert við. Þeim sé ekki heimilt að upplýsa um gang mála, vegna þess að stundum er borið við hlutafélagalögum og leynd sem þar eigi að hvíla yfir og svo er gripið í eitt og annað eftir því sem henta þykir. Við erum að tala undir þessum formerkjum um grafalvarlegt mál.

Mér dettur ekkert í hug annað en að hæstv. ráðherra vilji stíga varlega til jarðar og gera þetta fyrir opnum tjöldum eins og vel og nokkur kostur er en hann mun auðvitað ekki sitja í þessum stól til eilífðarnóns, væntanlega munu einhverjir aðrir taka við búsforráðum, ég veit ekki hvort ég segi fyrr en seinna, en a.m.k. einhvern tímann í framtíðinni. Það er ekki á vísan að róa í þeim efnum. Alþingi er því með samþykkt þessa frv. að sleppa þessu máli lausu. Í því ljósi er ekkert óeðlilegt að menn vilji með nokkrum orðum staldra við og velta upp ýmsum nýjum flötum sem kunna að verða á málinu. Það er undir þeim formerkjum sem ég vakti fyrst og síðast máls á því að þetta mál væri kannski ekki eins lítið í sniðum og það virðist á pappír þegar allt kemur til alls.

Herra forseti. Ég lofa því a.m.k. að skoða þetta mál með jákvæðum og opnum huga og fara grannt ofan í það í landbn. þegar málið kemur þar til umfjöllunar.