Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:36:54 (5067)

2001-02-28 14:36:54# 126. lþ. 79.3 fundur 435. mál: #A sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég hef nýlega mælt fyrir frv. til laga um sveigjanleg starfslok þar sem ég tel það vera mjög mikilvægt að þeim verði komið á hér eins og í nágrannalöndum okkar. Næstu ár og áratugi mun hlutfall fólks sem komið er á eftirlaunaaldur hækka og á sama tíma má gera ráð fyrir að meðalaldur hækki og heilbrigði aukist, ekki síst hjá þeim sem eldri eru.

Í núgildandi lögum almennt, t.d. sem varðar ríkisstarfsmenn, þá er þeim gert að hætta störfum í síðasta lagi þegar þeir hafa náð 70 ára aldri. Rökin fyrir þessum reglum voru einkum þau að skapa svigrúm fyrir yngra fólk á vinnumarkaði og draga úr atvinnuleysi. Þessi rök eiga síður við nú og munu missa gildi sitt enn frekar þegar hlutfall eldra fólks í þjóðfélaginu vex. Þetta mun leiða til þess að meiri þörf verður fyrir starfskrafta þessa fólks.

Heilsufar þjóðarinnar hefur farið stigbatnandi undanfarin ár og má ætla að sú þróun haldi áfram. Margir eru við fulla heilsu og með óskerta starfsorku þegar áttræðisaldri er náð og kysu að vinna áfram ef þeir hefðu færi á. En eins og reglurnar eru nú er þessu fólki oft nauðugur einn kostur að setjast í helgan stein þvert gegn vilja sínum. Engin haldbær rök eru fyrir svo stífum reglum.

Oft hefur verið erfitt fyrir fólk með fulla starfsorku að hætta störfum og ég þekki mörg dæmi þess að það hefur farið illa með heilsu fólks að hætta að vinna þegar það hefur fulla starfsorku. Sérstaklega á þetta við um karla, þetta er erfitt fyrir þá.

Ljóst er að þörf er fyrir þetta vinnuafl. Við höfum aukna þörf fyrir aukna starfskrafta og við eigum að nýta okkur krafta þessa fólks þó það hafi náð 70 ára aldri. Einnig þarf að vera unnt að hætta fyrr ef heilsa og vilji einstaklings stendur til þess.

Vegna þessa kalla ég, herra forseti, eftir upplýsingum frá hæstv. forsrh. um hvað líði störfum nefndar með sveigjanleg starfslok og hvenær við megum eiga von á tillögum eða frv. um þetta mikilvæga hagsmunamál hingað í þingið.