Sveigjanleg starfslok

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 14:42:31 (5070)

2001-02-28 14:42:31# 126. lþ. 79.3 fundur 435. mál: #A sveigjanleg starfslok# fsp. (til munnl.) frá forsrh., ÁMöl
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[14:42]

Ásta Möller:

Virðulegi forseti. Ég fagna því að búið er að skipa nefnd um sveigjanleg starfslok og sérstaklega vil ég fagna því að hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson leiðir nefndina. Það tryggir að vel verði unnið og góðar niðurstöður munu fást. Það er alveg ljóst að Íslendingurinn metur mikið gildi vinnunnar. Ég vek athygli á því að atvinnuþátttaka aldraðra hér í landi er mun meiri en þekkist t.d. annars staðar á Norðurlöndum. 44% þeirra sem eru 65 ára og eldri eru á vinnumarkaði á meðan sambærilegar tölur á öðrum Norðurlöndum eru 5--15%. Það er alveg ljóst að við eigum að setja hlutina upp þannig að það á að vera val einstaklingsins hvenær hann kýs að ljúka störfum, hvort það er fyrir sjötugt eða eftir sjötugt. Við vitum einnig að aldur segir ekkert til um hvað einstaklingurinn er hraustur eða tilbúinn til að vinna.