Málefni heyrnarskertra

Miðvikudaginn 28. febrúar 2001, kl. 15:01:14 (5079)

2001-02-28 15:01:14# 126. lþ. 79.5 fundur 364. mál: #A málefni heyrnarskertra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 79. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásta Möller spyr mig um hver sé framtíðarskipan í heilbrigðisþjónustu heyrnarskertra. Eins og fram kom hjá hv. þm. hafa málefni heyrnarskertra verið á döfinni um nokkurn tíma af þeim ástæðum sem hún rakti hér og ég ætla þá ekki að eyða tíma í.

Úttekt á Heyrnar- og talmeinastöðinni var unnin á vegum stjórnenda stofnunarinnar og var kynnt ráðuneytinu í apríl. Tillögur ráðgjafarfyrirtækisins beindust fyrst og fremst að innri starfsemi Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og jafnframt er bent á að endurskoða þurfi skipun stjórnar stofnunarinnar og endurskilgreina hlutverk hennar, móta framtíðarsýn og stefnu og breyta lögum til þess að skapa starfinu nauðsynlegan ramma. Síðsumars var myndaður hópur í ráðuneytinu til að vinna að þessu máli og skilaði hann tillögum til ráðherra um miðjan nóvember. Verið er að hrinda þeim tillögum í framkvæmd og þær koma allar til framkvæmda nú á næstunni.

Árangursstjórnunarsamningur verður gerður við stofnunina og tekið með þeim hætti á ýmsum vandamálum sem við er að glíma. Drög að slíkum samningi liggja fyrir og stjórnarformanni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar hefur verið falið að vinna hratt að þessu máli.

Verið er að endurskoða lög nr. 35/1980, um Heyrnar- og talmeinastöð Íslands, og mun ég leggja fram frv. nú á vorþingi. Í því eru eftirtalin atriði sérstaklega til skoðunar:

1. Endurskoðuð verði ákvæði um stjórn stöðvarinnar og skoðað hvort það þurfi sérstaka stjórn fyrir stofnunina.

2. Hvort skipað verði gæðaráð sem væri skipað m.a. fulltrúum þeirra samtaka er sinna hagsmunum skjólstæðinga stofnunarinnar.

3. Með hvaða hætti þjónustu við skjólstæðingana verði best fyrir komið.

Virðulegi forseti. Erfitt hefur verið að fá lækna til starfa og sérstaklega til afleysinga og mun svo verða áfram að óbreyttu. Því er mikilvægt að tryggja að starfskraftar lækna, sem menntaðir eru á þessu sviði, nýtist stofnuninni sem allra best og má hugsa sér að læknisfræðileg þjónusta við stofnununina sé veitt á grundvelli þjónustusamnings við háls-, nef- og eyrnadeild Landspítala -- háskólasjúkrahúss í Fossvogi. Það er sérstaklega til skoðunar þessa dagana. Formanni stjórnar hefur verið falið að meta hve mikið fjármagn þarf til að ná niður biðlistum sem er nú við að glíma og hve mikið þarf af viðbótarstarfsfólki með fagmenntun. Niðurstöðu hans er að vænta innan skamms. Þessar áherslur hafa verið kynntar stjórn stofnunarinnar og eru þar til umfjöllunar. Stjórnin mun taka þátt í að framkvæma margar af þessum breytingum.

Virðulegi forseti. Heyrnar- og talmeinastöðin er burðarás þjónustu við heyrnarskerta í heilbrigðisþjónustunni. Ég er sannfærð um að við munum ná árangri við að endurskipuleggja stofnunina og að þjónustan muni batna. Hún mun hins vegar verða kostnaðarsamari. Ég vil upplýsa hv. þm. Ástu Möller um að ég hef nú í nokkur ár við fjárlagagerð, beitt mér fyrir því að aukið fé fáist til þeirrar þjónustu sem hér um ræðir. Þó ég vilji ekki vanþakka þá aukningu sem náðst hefur fram er árangur minn ekki það mikill að hann fullnægi þeirri þörf sem fyrir liggur. Ég treysti hv. þm. og fyrirspyrjanda til að leggjast á árar með mér að fá meira fjármagn til þessarar mikilvægu stofnunar.