Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:18:04 (5173)

2001-03-05 15:18:04# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:18]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég gleðst mjög yfir framlagningu þessa frv. en samvinnurekstrarformið er göfugt rekstrarform og samvinnufélögin á Íslandi hafa í rauninni lyft grettistökum eins og og annars staðar í heiminum. Lög um samvinnufélög eru gömul, frá 1937 ef ég man rétt, með breytingum sem áttu sér stað 1991, en rekstrarformið hefur átt í vandræðum m.a. vegna þess að erfitt hefur verið að koma eigin fé inn í reksturinn og verðbólgan hefur brennt upp sjóði eins og varasjóði og stofnsjóði.

Í frv. er einnig gert ráð fyrir að reyna að efla eignarvitund félagsmanna þannig að samvinnufélögin geti orðið öflugri en þau eru. Sem betur fer eru enn í dag til myndarleg samvinnufélög, ég vil nefna Sláturfélag Suðurlands sem er öflugt samvinnufélag. Það eru líka öflug samvinnufélög norður í landi eins og Kaupfélag Skagfirðinga og fjöldi annarra samvinnufélaga. Samvinnurekstrarformið er öflugt á Norðurlöndum. Ég nefni sem dæmi Brugsen í Danmörku og SF í Noregi. Þessi samvinnufélög hafa verið að slá sér saman um verslun á Norðurlöndum og ég er viss um að með framlagningu þessa frv., ef það nær fram að ganga, megi efla slíkt rekstrarform sem er nauðsynlegt í þeirri flóru sem við erum með í sambandi við rekstur fyrirtækja.

Á síðustu áratugum hefur hlutafélagsrekstrarformið rutt sér æ meira til rúms og er allt gott um það að segja en ég held að það sé líka nauðsynlegt að viðhalda þessu formi. Það hlýtur að gleðja þingmenn að við höfum sem fjölbreyttasta flóru hvað rekstrarform varðar þegar við erum að fjalla um atvinnurekstur í landinu.