Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:20:28 (5174)

2001-03-05 15:20:28# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég vil svara spurningum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta málefni. Hv. þm. gat þess reyndar að sér hefði ekki unnist tími til að bera öll þessi frv. saman við þau sem voru lögð hér fram í fyrra. Í máli hennar kom fram að hún hafði t.d. ekki borið saman, eða ég heyrði það á máli hennar, frv. um samvinnufélög, þ.e. innlánsdeildir, núna og í fyrra vegna þess að ábendingin sem kom frá ríkisskattstjóra varðandi ákvæði til bráðabirgða var tekin til greina og hana er að finna í frv. núna.

Að vísu segir í frv. að ríkissjóður skuli endurgreiða álagða tekjuskatta og eignarskatta úr Tryggingarsjóði innlánsdeilda en það er ótímabundið meðan áður var gert ráð fyrir tveimur árum en það væri kannski athugandi fyrir nefndina að skoða það atriði sérstaklega.

Áður en ég svara spurningunum sem lúta að bréfi ríkisskattstjóra frá því í fyrra vil ég aðeins segja að hér er verið að fást við rekstrarform sem eins og hv. síðasti ræðumaður gat um á sér langa og að mörgu leyti merkilega sögu en sem hefur ekki fyllilega staðist tímans tönn að því er varðar breyttar aðstæður í þjóðfélaginu. Hugmyndin með þessum frv. núna er því að gera rekstri í slíku formi kleift að spjara sig áfram á jafnréttisgrundvelli gagnvart öðrum. Um það snýst þetta mál og frumvörpin frá hæstv. viðskrh. og þetta skattalagamál sem verður þeim vonandi samferða hér í gegnum þingið.

Allar deilur fyrri tíðar um hvaða rekstrarform væri hentugast í atvinnurekstri á Íslandi heyra til liðinni tíð. Áður var mikið um það deilt og undan því kvartað að samvinnufélögin nytu ákveðins forskots, til að mynda í skattalegu tilliti og í ýmsum öðrum atriðum. En nú er hins vegar svo komið að þau eiga erfitt uppdráttar vegna þess að þau hafa ekki getað fjármagnað sig með eðlilegum hætti í samkeppni við rekstur sem er í öðru formi og þau skattalegu atriði sem áður voru talin samvinnufélögunum sérstaklega til tekna eru auðvitað löngu horfin úr skattalögum. Þetta mál snýst því eingöngu um að búa þannig um hnútana að samvinnufélagarekstur geti keppt, að félög sem eru rekin sem samvinnufélög geti keppt við annars konar fyrirtæki á eðlilegum grundvelli. Menn verða því að hafa það til hliðsjónar þegar þeir fjalla um þetta frv. og þær breytingar sem hér er verið að gera og þetta skiptir máli varðandi þær spurningar sem hv. þm. beindi til mín og kem ég þá að þeim.

Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn að því hvort um það væri að ræða í þessu máli, eins og ætla mætti af ábendingum ríkisskattstjóra frá því í fyrra, að ríkissjóður væri að afsala sér ákveðnum tekjum, skatttekjum. Ég tel ekki að það skipti nokkru máli vegna þess að ekki er um það að ræða að þessi skattstofn myndist sem ætlunin er að undanþiggja án slíkrar lagabreytingar. Það verður ekkert um það að ræða að þessi fyrirtæki fari að breyta sér í hlutafélög að óbreyttum skattalögum og skattstofninn sem þarna er verið að tala um er það sem gerist þegar verðmæti eru flutt á milli fyrirtækja í mismunandi formum. Þó að þetta sé að sjálfsögðu fræðilega rétt þá held ég ekki að þetta sé í raun nokkurt afsal skatttekna.

Og það svarar þá í leiðinni annarri spurningu hv. þm. hversu mikið umfang væri hér um að ræða. Að vísu vitum við náttúrlega ekki fyrir víst hversu mörg samvinnufélög munu hagnýta sér þetta, þann möguleika að skipta um rekstrarform, en hitt er annað mál að ef þau gerðu það ekki án þessarar lagabreytingar þá er ekki um að ræða tap skatttekna í neinum raunverulegum skilningi og þar af leiðandi getum við ekki gefið okkur að það sé eitthvert umfang í þeim efnum.

Hversu margir munu nýta sér þessa möguleika vitum við náttúrlega ekki en vonandi verða þeir einhverjir sem reka samvinnufélög sem sjá sér hag í því að hagnýta sér þessa nýju möguleika þó ekki væri til annars en að geta aflað sér aukins áhættufjármagns til rekstrarins með þeim hætti sem tíðkast t.d. í hlutafélögum þar sem er, eins og segir hér í þessum skjölum, ríkari og meiri eigendatilfinning eða eignarvitund þeirra sem eiga félögin. Það sem hefur auðvitað háð þessum rekstri er óbein tenging á milli þeirra sem taldir eru vera eigendur félaganna og félaganna sjálfra ólíkt því sem er í hlutafélögum.

Síðan spurði þingmaðurinn í þriðja lagi um hlutfallslega skiptingu hlutafjár sem væri útgangspunktur í lögum um hlutafélög. Í athugasemdum ríkisskattstjóra er vikið að þessu og sagt að aðferð frv. geri ekki kröfu um jafna hlutfallsskiptingu sem þó sé nánar skýrt í athugasemdum við 3. gr. frv. og jafnframt tekið fram að það kunni að vera eðlilegt við þessar aðstæður að nokkuð af þeirri hækkun skiptist jafnt milli allra sem félagsréttindin hafa en að öðru leyti verði hækkunin reiknuð í hlutfalli við einstakar stofnsjóðsfjárhæðir og tekið tillit til þess hversu lengi þær hafa staðið inni hjá félaginu.

Þarna segir ríkisskattstjóri að geti orðið um ákveðið misvægi að ræða og það er áreiðanlega eitthvað til í því. En það er hins vegar væntanlega enn meiri erfiðleikum bundið að ætla að gera þetta á einhvern annan hátt en hér er lagt til.

Síðan er vakin athygli á því í framhaldi af þessu, og það er þá hluti af þriðju spurningu þingmannsins, hvort verið sé að afhenda félagsaðilum endurgjaldslaust verðmæti úr samvinnufélögum sem þeir hafi aldrei átt tilkall til samkvæmt lögum um samvinnufélög. Ég býst við að það sé alveg hárrétt að samkvæmt lögum um samvinnufélög, eins og þau hafa verið, hafa þessir aðilar ekki getað gert það sem kalla mætti eðlilegt eigendatilkall til þessara hluta, jafnvel þó að enginn annar aðili innan félags eða utan hafi getað gert neitt ríkara tilkall. Þessir aðilar eiga ríkasta tilkallið þó að lögin um samvinnufélög hafi hins vegar verið þannig að það hafi verið vafamál að þeir ættu slíkt tilkall. Út frá því sjónarmiði séð er það vissulega rétt að þarna er fólk að fá í hendur ákveðin verðmæti sem e.t.v. má deila um hvort það hafi átt fyllilegt tilkall til en það er þá í það minnsta enginn annar sem á neitt frekara eða ríkara tilkall til þessara hluta. Það er því út af fyrir sig gott og gilt sem hérna stendur í áliti ríkisskattstjóra og sjálfsagt að koma með slíkar ábendingar en það er engin önnur leið fær en sú sem hér er valin til þess að leysa það mál sem menn eru að reyna að gera hérna.

[15:30]

Þarna kem ég að því sem ég sagði áðan í aðdraganda þess að ég svaraði þessum spurningum. Vandinn sem reynt er að leysa með þessu frv. er náttúrlega vegna eðlis þessara félaga, samvinnufélaga, sem m.a. birtist í óskýrum eignatengslum félagsmanna og félagsins, ólíkt því sem er í hlutafélögum. Það er vandinn sem verið er að reyna að leysa. Út á það gengur frv. Auðvitað er eðlilegt að menn fari vel og nákvæmlega yfir þetta, bæði í þingsalnum og í þingnefndinni. Það er sjálfsagt að velta fyrir sér hvort þarna sé of langt gengið eða hvort einhverjir aðrir komi frekar til greina sem eigendur o.s.frv. Ég held reyndar að svo sé ekki.

Fjórða spurning þingmannsins lýtur að því hvort frávikið sem hér er óneitanlega lagt til frá gildandi skattalögum og hinum almennu reglum, þegar gerðar eru sérreglur til að greiða fyrir því að samvinnufélög geti breytt sér í hlutafélög, geti haft fordæmisgildi gagnvart öðrum ákvörðunum þannig að önnur félög með óljósa eignaraðild, eins og það er orðað, lendi í sömu aðstöðu og gerð verði krafa á þeirra eigið fé með svipuðum hætti og hér er komið í kring.

Ég veit ekki nákvæmlega hvað ríkisskattstjóraembættið hafði í huga þegar þessar setningar voru settar á blað. Mig grunar eigi að síður að þarna sé átt við sparisjóðina. Þar er að sjálfsögðu óljós eignaraðild miðað við það sem tíðkast í hlutafélögum. Hins vegar vill svo til að viðskrh. hefur undirbúið frv. um sparisjóðina sem annaðhvort er komið inn í þingið eða er á leiðinni. Þar er tekið á þessu atriði gagnvart sparisjóðunum með því að svokallaðir stofnfjáreigendur, sem hefðu þá væntanlega verið þeir sem hefðu getað fengið eitthvað meira út úr eigin fé sparisjóðanna en þeir ættu kannski eðlilegan rétt á, fá ekki nema þann hlut í eigin fénu sem samsvarar þeirra hlut í stofnfénu, sparisjóðnum. Ætlunin er að stofna sjálfseignarstofnanir utan um hinn hlutann í þessu. Þar með tel ég að hugsað hafi verið fyrir vandamálinu sem hér er bent á í athugasemdum ríkisskattstjóra, í það minnsta að því er varðar sparisjóðina. Ég á erfitt með að koma auga á mörg fleiri tilvik þar sem frávik í þessu frv. geti haft eitthvert fordæmisgildi. Ég tel að það sé búið að byrgja þann brunn síðan þetta frv. var flutt á síðasta þingi.

Þannig stendur þetta, herra forseti. Þar með held ég að ég hafi svarað þessum fjórum spurningum sem þingmaðurinn beindi til mín á grundvelli álits ríkisskattstjóra frá því í fyrra.

Ég vil gjarnan bæta því við að eitt óleyst mál í skattalögunum er náttúrlega skylt þessu að hluta, þ.e. spurningin um hvernig einstaklingar geta breytt rekstri sínum í hlutafélög án þess að verða fyrir alvarlegum áföllum í skattalegu tilliti af því tilefni. Það mál er til skoðunar í fjmrn. Ég vona að okkur takist að finna lausn á því þannig að einstaklingar í rekstri eigi þess kost að breyta rekstri sínum í hlutafélög án þess að vera sérstaklega refsað fyrir það á grundvelli skattalaganna.