Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:36:56 (5176)

2001-03-05 15:36:56# 126. lþ. 81.6 fundur 481. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (samvinnufélög) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:36]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Um hið síðasta sem þingmaðurinn nefndi er að sjálfsögðu engin leið að fullyrða. Það er náttúrlega ekki vitað á þessari stundu hvaða félög muni nýta sér þessa möguleika, að breyta rekstri sínum yfir í hlutafélagaform. Eins og fram kom í máli hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar hér áðan þá ganga ýmis samvinnufélög ágætlega í núverandi formi þó að e.t.v. megi segja að þau gætu gengið enn betur í hlutafélagaforminu. Maður veit ekki hvort þessi félög, þau öflugu samvinnufélög sem hann nefndi t.d., muni taka þennan kost. Á meðan enginn veit um það er náttúrlega ekki hægt að svara þessari spurningu. Ég geri þó ráð fyrir að í einhverjum tilfellum sé um veruleg verðmæti að ræða.

Það er ljóst að enginn annar, eins og ég sagði áðan, getur gert eitthvert ríkara tilkall. Það væru þá kannski viðskiptavinir í gegnum árin eins og í gagnkvæmum tryggingafélögum eða eitthvað þess háttar. Hins vegar er enginn lagagrundvöllur til að skjóta stoðum undir neitt slíkt þannig að ég fagna því að nefndin ætli að líta sérstaklega á þetta atriði og tel sjálfsagt að það verði gert. Það er aftur á móti ekki hægt að gefa nákvæmari upplýsingar á þessu stigi eins og þetta mál er vaxið.