Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:42:39 (5179)

2001-03-05 15:42:39# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996. Með fyrrnefndu frv. um nytjastofna sjávar er kveðið á um sviptingu leyfa til veiða í atvinnuskyni vegna veiða umfram aflaheimildir.

Í 14. gr. laganna segir að Fiskistofa skuli svipta hvert það skip leyfi til veiða í atvinnuskyni sem veitt hefur umfram veiðiheimildir sínar. Í fyrsta skipti sem skip veiðir umfram veiðiheimildir sínar fær það leyfið aftur strax og aflaheimildir þess hafa verið auknar þannig að afli skipsins rúmist innan þeirra. Fari skip aftur yfir aflaheimildir á sama fiskveiðiári skal skipið þar til viðbótar sæta leyfissviptingu í tvær vikur og síðan lengist tíminn sem leyfissviptingin varir eftir því sem brotum fjölgar.

Í 2. mgr. 3. gr. segir að skipi sé óheimilt að hefja veiðiferð nema það hafi aflaheimildir í þeim tegundum sem líklegt er að dugi fyrir afla í veiðiferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru. Hér er um sjálfstæða grein að ræða og viðurlög vegna brota á henni eru samkvæmt 15. gr. laganna að Fiskistofa skuli ávallt svipta skip leyfi til veiða. Við fyrsta brot skal svipta skip leyfi skemmst í tvær vikur en ekki lengur en 12 vikur eftir eðlilegu umfangi brots. Við endurtekin brot skal svipting ekki standa skemur en sex vikur og ekki lengur en eitt ár.

Við framkvæmd ofangreindra ákvæða hafa komið fram ýmsir annmarkar sem hafa í sumum tilvikum leitt til óeðlilegrar niðurstöðu fyrir útgerðir. Þá getur framkvæmdin leitt til nokkuð mismunandi viðurlaga vegna brota sem ekki er sérstök ástæða til að gera mun á. Þykir því nauðsynlegt að gera nokkrar breytingar á gildandi ákvæði sem gera framkvæmd Fiskistofu markvissari, tryggja betur samræmi við viðurlögum auk þess sem útgerðum fiskiskipa er veitt eðlilegra svigrúm til leiðréttinga.

Samkvæmt því sem hér er lagt til skal Fiskistofa ávallt tilkynna útgerð og skipstjóra skips með skeyti þegar hún telur að skipið hafi veitt umfram aflaheimildir sínar og jafnframt að leyfi skipsins til veiða í atvinnuskyni falli niður frá og með fjórða virka degi hafi fullnægjandi aflaheimildir ekki verið fluttar til skipsins innan þess tíma. Að fenginni slíkri tilkynningu frá Fiskistofu hefur viðkomandi útgerð þrjá daga til þess að flytja nægilegar aflaheimildir á skipið eða til þess að koma athugasemdum á framfæri við Fiskistofu. Telji hún að aflaheimildastaða skipsins sé önnur en fram kemur í tilkynningu Fiskistofu er gert ráð fyrir að Fiskistofa geti veitt frekari frest, sé ástæða til að ætla að um ranga skráningu afla eða aflaheimilda sé að ræða enda getur athugun á slíku tekið nokkurn tíma.

[15:45]

Í reynd er það svo að í langflestum tilvikum þegar Fiskistofa tilkynnir útgerð um umframafla eru upplýsingar Fiskistofu réttar og mistök við skráningu afla eða aflaheimilda frekar undantekningartilvik. Með þessari framkvæmd fær útgerð ávallt nokkurt svigrúm til að laga stöðu sína þegar um umframafla er að ræða án þess að nauðsynlegu aðhaldi sé sleppt. Ekki er gert ráð fyrir að til sviptingar leyfis til veiða komi strax eins og núgildandi ákvæði gera ráð fyrir án tillits til þess hversu mikill umframaflinn er eða hvort hann er í tegundum sem telja verði að sé aukaafli í viðkomandi veiðum. Taki leyfisvipting hins vegar gildi fær skipið leyfi til veiða þegar aflaheimildarstaða þess hefur verið lagfærð. Komi aftur til sviptingar leyfis til veiða í atvinnuskyni á sama ári vegna veiða umfram aflaheimildir kemur til sérstakrar leyfissviptingar skv. 2. mgr. Er þar aðeins vikið frá gildandi ákvæði að því leyti að kveðið er skýrt á um sviptingu þegar veitt er umfram aflaheimildir oftar en þrisvar á sama fiskveiðiári og að nýtt fiskveiðiár hafi aldrei áhrif á lengd leyfissviptingarinnar. Er það gert vegna þess að gildandi ákvæði eru nokkuð óljós hvað hið síðarnefnda varðar.

Að lokum er rétt að árétta að þær breytingar sem hér eru lagðar til breyta engu um það að brot vegna veiða án tilskilins veiðileyfis eru án allra veiðiheimilda, sæta meðferð opinberra mála og viðurlögum samkvæmt ákvörðun dómstóla.

Herra forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. sjútvn.