Umgengni um nytjastofna sjávar

Mánudaginn 05. mars 2001, kl. 15:47:04 (5180)

2001-03-05 15:47:04# 126. lþ. 81.7 fundur 504. mál: #A umgengni um nytjastofna sjávar# (veiðar umfram aflaheimildir) frv., GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 81. fundur, 126. lþ.

[15:47]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Kannski er ástæða til að halda ræðu um þetta mál og verður kannski gert á eftir en ástæða er til þess í andsvari að spyrja um og vera með nokkrar athugasemdir um frv.

Ég fagna því þegar menn ætla og vilja breyta umgengni um auðlindina þannig að farið sé að lögum en ég vil spyrja hæstv. ráðherra spurninga varðandi meðafla sem er núna á ferðinni. Ég hef spurt þessara spurninga áður og vakið athygli á því að veidd eru hrein býsn af grásleppu á hverju ári. Ég hef nánast á hverju ári rætt um og bent á hvað er að gerast.

Í ár er búið að veiða yfir 100 tonn. Á annað hundrað tonn er búið að landa á mörkuðum af hrognkelsum. Ekki hefur verið gripið til neinna aðgerða, ekki nokkurra. Þetta er stofn sem veittar eru veiðiheimildir með sérstöku leyfi og þetta er eini fiskurinn sem er örugglega hægt að koma í sjó eftir að hafa verið á dekki jafnvel í heilan klukkutíma og fiskurinn lifir það af. Þetta er eini fiskurinn sem ég veit um að lifir slíkt af. En þessum afla er landað. Um er að ræða verðmæti í hrognum, bara í hrognum, sem nemur um 30 millj. kr. og það skiptir miklu fyrir smábátaútgerðirnar.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera? Hvernig ætlar hann að beita sér í málinu? Hvað hefði gerst ef um 100 tonn af síld hefði verið að ræða? Hvað hefði gerst ef um 100 tonn af humri hefði verið ræða? Hvað hefði gerst ef um 100 tonn af rækju væri að ræða? Ef menn hefðu landað því sem meðafla. Ég spyr og tel ástæðu til að spyrja.