Eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 13:46:43 (5283)

2001-03-07 13:46:43# 126. lþ. 83.91 fundur 347#B eftirlitsskylda þingmanna með framkvæmd laga# (aths. um störf þingsins), EMS
[prenta uppsett í dálka] 83. fundur, 126. lþ.

[13:46]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Enn skortir allan rökstuðning í máli þessu þrátt fyrir að bæði hæstv. forsrh. og hv. formaður menntmn. hafi tekið til máls. Þrátt fyrir að hæstv. menntmrh. hafi sent bréf til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði skortir enn allan rökstuðning fyrir túlkun ráðherrans á 53. gr. grunnskólalaga. Við í Samfylkingunni höfum látið skoða, um 27 ár aftur í tímann, hvernig um þessi mál hefur verið fjallað í þingsölum, í greinargerðum, lagafrumvörpum og tillögum um lagabreytingar. Hvergi nokkurs staðar, herra forseti, er að finna stafkrók með túlkun í þessa átt. Það vekur auðvitað athygli á hvaða flótta fulltrúar Sjálfstfl. eru í málinu. Þess vegna er ítrekuð spurningin: Hvers vegna verður ekki heimiluð efnisleg umræða um málið? Hvers vegna skulu eingöngu leyfðar utandagskrárumræður eða fyrirspurnir? Hvers vegna skal umræðan bíða þess að frv. sem hér liggur fyrir verði tekið á dagskrá þegar ljóst er að það frv. verður aldrei afgreitt fyrr en að loknum þeim fresti sem veittur er vegna útboðsins í Hafnarfirði? Gert er ráð fyrir að ganga frá því máli í byrjun aprílmánaðar og það væri æðisnaggaraleg afgreiðsla á frv. og væru tíðindi ef frv. frá stjórnarandstöðu fengi svo snaggaralega afgreiðslu hér.

Fróðlegt væri að heyra frá formanni menntmn. hvort það sé vilji hv. þm. að hraða svo störfum nefndarinnar að frv. geti komið til afgreiðslu fyrir 6. apríl nk. Þá væri ljóst, herra forseti, hver vilji meiri hluta Alþingis er í málinu.

Það skyldi þó ekki vera að ástæðan fyrir flóttanum, ástæðan fyrir því að ekki má fara fram efnisleg og fagleg umræða um málið sé að hv. þm. Sjálfstfl. viti að það er ekki meiri hluti í þingsölum fyrir þeirri stefnu sem þeir vilja fylgja í grunnskólamálum landsins.