Forvarnastarf gegn sjálfsvígum

Miðvikudaginn 07. mars 2001, kl. 14:20:11 (5298)

2001-03-07 14:20:11# 126. lþ. 84.3 fundur 437. mál: #A forvarnastarf gegn sjálfsvígum# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 84. fundur, 126. lþ.

[14:20]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fsp. til hæstv. heilbrrh. sem hljóðar svo:

,,Hvaða forvarnastarf er unnið á vegum ráðuneytisins gagnvart þeim sem eru í sjálfsvígshugleiðingum og sjálfsvígshættu?``

Herra forseti. Allmikil vinna hefur farið fram hjá heilbrigðisyfirvöldum í að rannsaka tíðni og orsakir sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna og hvernig unnt sé að efla forvarnir. Skýrsla kom út árið 1996 í kjölfar þál. frá árinu 1992 og nefnd hefur verið að störfum á vegum landlæknis frá árinu 1999 sem mun að öllum líkindum skila af sér á næstunni. Geðrækt, forvarnaverkefni Geðhjálpar, landlæknisembættisins og geðsviðs Landspítala hefur einnig sinnt þessum málum. Öll þessi vinna er vissulega af hinu góða. En veruleg þörf er á því að nú verði hafist handa og fleira gert en kannanir og rannsóknir.

Niðurstöður rannsókna sýna að aðgerða er þörf. Rannsóknir íslenskra sérfræðinga frá 1985 sýna að fleiri þeirra sem reynt hafa sjálfsvíg falla fyrir eigin hendi en viðmiðunarhópur og að 1% fremur sjálfsvíg innan árs. Fleiri falla fyrir eigin hendi hér á landi en í umferðarslysum á ári hverju.

Hér þarf að taka til hendinni. Hér er t.d. engin neyðarlína eins og er í flestum öðrum löndum en aðkallandi er að koma á slíkri símalínu, að koma á neyðarlínu fyrir fólk í sjálfsvígshugleiðingum þar sem fagleg þjónusta er veitt, einnig fyrir þá sem óttast um sína nánustu, þ.e. að þeir séu í slíkum hugleiðingum, og vilja leita ráða.

Mikill tími starfsmanna Geðræktar og Geðhjálpar fer í að sinna símaneyðarþjónustu í vinnutímanum og svara tölvupósti fólks sem er í alvarlegum vanda, á við þunglyndi að stríða og er í sjálfsvígshugleiðingum. Álagið sýnir að neyðarlínu sem þessari verður að koma á fót og þjónustunni þarf að sinna allan sólarhringinn. Geðrækt er tilbúin að taka að sér slíka þjónustu. Einkafyrirtæki hefur boðist til að greiða hluta kostnaðar, þ.e. símakostnaðinn, en starfsfólk vantar. Það vantar fjármagn í launakostnað fyrir starfsfólk en fagfólk þarf til að sinna þessari þjónustu.

Í heilbrigðisáætlun sem nú liggur fyrir þinginu er markmiðið m.a. að fækka sjálfsvígum um 25%. Ef það er markmiðið og það á að nást þá verður að taka forvarnirnar föstum tökum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Hvað er verið að gera í þessum aðkallandi forvarnamálum til að bjarga þeim mannslífum sem þarna eru í hættu? Er hæstv. ráðherra tilbúinn að koma á rekstri neyðarlínu eins og þeirri sem ég hef þegar lýst og Geðrækt er tilbúin að taka að sér?